145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:17]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel tvær leiðir koma til greina og hugsanlega þrjár. Ein er einfaldlega sú að ræða málið betur í nefnd og þá sér í lagi þann kost að styrkja ÞSSÍ sem væri einnig í samræmi við tillögur Þóris Guðmundssonar. Ég veit ekki hvort það er í raun og veru málamiðlun en ég mundi að minnsta kosti stinga upp á henni sem hugsanlegri málamiðlun.

Tvær aðrar leiðir sem mér þykja alveg ótvírætt vera málamiðlanir er í fyrsta lagi sú að ÞSSÍ yrði lögð inn í utanríkisráðuneytið en ekki lögð niður sem stofnun. Það væri önnur nálgun á þær tillögur sem Þórir Guðmundsson lagði fram og væri einnig í samræmi við það sem aðrar þjóðir hafa verið að gera en eins og fyrr greinir þá eru fordæmi fyrir þeirri hugmynd sem er í frumvarpinu, málið er bara að hún er ekki alveg í samræmi við fordæmin. Ef við fylgdum fordæmunum betur þá færum við í raun og veru þá leið að leggja ÞSSÍ inn í utanríkisráðuneytið án þess að leggja stofnunina niður. Það er ein málamiðlun.

Önnur sem ég hef heyrt varpað fram er sú að setja lögin en fresta gildistöku fram til næsta kjörtímabils, þá væri komið aukið vægi á bak við ákvörðunina, næsti meiri hluti þyrfti að samþykkja hana líka eftir næstu kosningar 2017. Þetta var gert til dæmis þegar kom að náttúruverndarlögunum og hefur verið gert stundum til þess að mjaka málum áfram þannig að menn geti haldið áfram að vinna með þau. Náttúruverndarlögin að mínu mati er eitt fallegasta dæmið þar sem málamiðlanir virka og gera okkur kleift og gera Alþingi kleift að fá eintóman grænan lit á þessa góðu töflu við atkvæðagreiðslu. Maður hefði ekki talið það mögulegt á síðasta kjörtímabili eða í upphafi þessa þegar hugmyndin var að afnema þau með öllu. Svona geta málamiðlanir skilað raunverulegum árangri en það þarf að vera vilji til þess.