145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:37]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi það síðasta sem kom fram hjá hv. þingmanni um hvað mörg ríki séu með sjálfstæðan ráðherra yfir þróunarmálum, eins og ég skildi hv. þingmann, þá verð ég að viðurkenna að ég kann ekki þær upplýsingar nákvæmlega, en það sem ég ætla að segja núna er eingöngu byggt á minni sem getur verið gloppótt. Ég man bara eftir einu Evrópuríki sem er með sérstakan þróunarráðherra og það eru Bretar. Þetta getur verið tóm vitleysa hjá mér, en ég man þó eftir því að Bretar eru með sérstakan ráðherra þróunarmála, ég get ekki sagt frá því hvort hann hefur einhver önnur verkefni á sinni könnu, en alla vega eru þeir að gera þetta með þessum hætti.

Hv. þingmaður nefndi úrvalslið í úrvalsdeild. Já. Við getum alveg fullyrt það að eftir að við breyttum nálgun okkar í tvíhliða þróunarsamvinnu með því að færa verkefnin í það form sem er í dag, að einbeita okkur til dæmis að héraðsnálgun og láta heimamenn í rauninni sjá um framkvæmdina og sinna eftirliti, að þá erum við komin með aðferðafræði sem má alveg segja að sé í meistaradeild, eftirlit og annað hefur gengið mjög vel eftir. Við erum að fá ýmislegt meira út úr þeirri aðferð en akkúrat að tryggja til dæmis vatn, sem er mjög mikilvægt, eða byggja sjúkrahús eða skóla. Við erum líka að búa til þekkingu í stjórnskipulaginu í héruðunum sem er mjög mikilvægt.

En það er nú þannig með öll lið, hvort sem þau eru í annarri deild, úrvalsdeild eða einhvers staðar annars staðar, þá leitast allir við að gera enn betur. Við teljum að hægt sé að gera enn betur með því að hafa fleira fólk saman komið. Stærri massa að vinna saman en tvær litlar stofnanir sem báðar sinna mikilvægum og góðum málum. Ég verð að segja að það er ekki verri framkvæmd eða verra starfsfólk sem sinnir þessum málum í utanríkisráðuneytinu en innan ÞSSÍ. Okkar markmið er að gera þetta lið þá ósigrandi (Forseti hringir.) ef við ætlum að halda okkur áfram við keppnissamlíkingu.