145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Með þeirri aðferð sem við erum að leggja upp með, að sameina ÞSSÍ við starfsstöðina í ráðuneytinu og halda ICEIDA-nafninu, eins og ég sagði við 1. umr. um þetta mál, erum við að sjálfsögðu að halda í vörumerkið sem er dýrmætt. Það er sérstaklega dýrmætt út á við, ICEIDA-nafnið.

Ég ítreka það sem ég hef áður sagt að markmið okkar með þessu er að fá stærri liðsheild, betra lið sem sinnir öllum gerðum þróunaraðstoðar sem við erum með á okkar könnu í dag, hvort sem það er marghliða eða tvíhliða.

Skipulagið, þ.e. hvernig fjármagnið fer og annað, er svo ákveðið í gegnum þingsályktun á Alþingi. Ég sé ekki annað en að um þetta allt sé vel búið í þeim tillögum sem hér eru lagðar fram.

Það er alveg rétt varðandi þessa umræðu okkar hér á milli varðandi Danida að það er vitanlega aðeins öðruvísi nálgun hjá Dönum þegar kemur að þróunarsamvinnu en hjá okkur. Þeir eru með býsna öðruvísi nálgun þar sem atvinnulífið er meira inni í o.s.frv. Engu að síður er þetta nafn, heiti þeirra, enn þá notað og er býsna dýrmætt, alveg eins og ICEIDA verður hjá okkur, því að þetta er þekkt nafn í þróunarsamvinnuheiminum.