148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

fækkun rúma fyrir vímuefna- og áfengissjúklinga.

[15:25]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Frá 1985 hefur heilbrigðisráðuneytið fækkað sjúkrarúmum sem ætluð eru til meðferðar vímuefna- og áfengissjúklinga úr 265 niður í 62. Þetta er 400–500% fækkun á þessu tímabili, á sama tíma og þörfin hefur aldrei verið meiri til að stíga inn og hjálpa þessum þjóðfélagshópi.

Staðreyndin er sú að á meðan 500–600 Íslendingar, áfengis- og vímuefnasjúklingar, bíða eftir því að fá úrræði og hjálp deyja þau. Þau deyja á þessum biðlista, við getum líkt þessu við það, hæstv. forseti, að fólki væri meinað að fara á bráðamóttökuna vegna þess að það á að bíða fyrir utan og getur þá bara dáið á meðan.

Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra: Er það viðunandi að við skulum vera í samtali á meðan við þurfum að vera með aðgerðir, á meðan við þurfum að stíga inn, í ljósi þess að það er ekki verið að biðja um háar peningaupphæðir? Við erum að tala um baunir í samanburði við það lífsins alvörumál sem það er þegar við getum ekki stigið inn og hjálpað fólkinu okkar sem þarfnast þeirrar hjálpar meira en nokkuð annað.

Hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvað ertu að gera fyrir þetta fólk?