148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

tollar á innfluttar landbúnaðarvörur.

[15:32]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Á nýafstöðnu búnaðarþingi komu fram miklar áhyggjur af tollasamningum sem gerðir voru við ESB og taka gildi 1. maí nk. Þingið samþykkti harðorða ályktun og krefst þess að samningi við ESB verði sagt upp. Bændur gera þá kröfu til ríkisstjórnarinnar að hún taki stöðu með innlendri matvælaframleiðslu og styrki tollvernd íslensks landbúnaðar.

Þessi krafa er réttmæt enda er landbúnaður mjög mikilvæg atvinnugrein á Íslandi, tryggir matvælaöryggi, framleiðir hágæðavörur og veitir fjölda fólks atvinnu um allt land. Öll ríki vernda sinn landbúnað, það er ekki eitthvert séríslenskt fyrirbæri. Ræða hæstv. landbúnaðarráðherra á búnaðarþingi olli vonbrigðum, það verður að segjast eins og er, og því miður var þar ekki á ferðinni öflugur gæslumaður íslensks landbúnaðar. Ráðherra lítur á það sem tækifæri fyrir landbúnaðinn að ESB fái m.a. að flytja hingað til lands 610 tonn af tollfrjálsum ostum á sama tíma og íslenskir bændur fá aðeins að flytja 50 tonn til ESB.

Bændur kannast ekki við þessi tækifæri. Samningurinn er ójafn og endurspeglar hvorki stærðarmun markaðanna né samkeppnisfærni íslensks landbúnaðar í ESB. Því má heldur ekki gleyma að okkar stærsti og besti markaður, Bretland, verður ekki inni í þessum samningi, nú þegar Bretar yfirgefa Evrópusambandið. Krafa bænda um að segja upp samningnum við ESB er réttmæt og eðlileg, ekki síst í ljósi þess að það eru brostnar forsendur með útgöngu Breta úr ESB.

Ég vil því spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra: Hver er afstaða hans til ályktunar búnaðarþings um að segja upp tollasamningnum við ESB? Mun ráðherra beita sér fyrir því að samningnum verði sagt upp?