148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

komugjöld.

[15:48]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir kæra kveðju.

Við segjum í stjórnarsáttmálanum, með leyfi forseta:

„… aðrar leiðir til gjaldtöku [verði] kannaðar í samráði við greinina, m.a. möguleikar á álagningu komu- eða brottfarargjalds.“

Mér fannst nú svolítið skemmtilegt að fá spurninguna því ekki var verið að lýsa yfir óþolinmæði eða hvetja mig til dáða. Það er tilbreyting. Þetta var svona annar snúningur en ég bjóst við og hann var skemmtilegur.

Það sem við erum að gera núna er að taka saman gögn sem eru til. Þetta mál hefur auðvitað komið inn í þingið áður, en mjög margt hefur breyst síðan þá; það sem við erum að gera er að vinna þær greiningar. Hvaða áhrif hefur 500 kr. álagning eða 1.000 kr. álagning eða 1.500 kr. álagning á flugfélögin, á lággjaldaflugfélög? Við erum að vinna með hugmyndina þannig að þetta eigi við um þegar komið er til landsins en ekki — nú man ég bara enska orðið á fluginu þegar fólk er í „transit“ (Gripið fram í.) — skiptiflugi. En það kann að vera að svona gjald hafi einmitt þannig áhrif á flugframboðið að það hafi áhrif á samkeppnishæfnina. Þetta er það sem við erum að gera. Það þarf að finna út úr því hvaða áhrif þetta hafi, hver sé verðmyndunin, hvaða áhrif hefur þetta á flugframboð. Og útfærslan á þessu skiptir líka öllu máli. Það hefur verið rætt hvort þetta eigi að vera á háannatímum eða allt árið. Þetta er einfaldlega vinna sem er eftir.

Þrátt fyrir allt er þetta stórmál. Ég ætla ekki að gera neitt nema við vitum algerlega hvað við erum að gera. Það er ástæða fyrir því að þetta hefur tekið tíma og það er auðvelt að segja að það sé ekkert mál að leggja á komugjöld en það er auðvitað flókið og útfærslan á því skiptir öllu máli, hvert sé markmiðið. Ég kem betur inn á það í seinna andsvari. Nú man ég eftir spurningu hv. þingmanns.