148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

boðaður niðurskurður opinberrar þjónustu.

[15:53]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn minni til nýkjörins varaformanns Sjálfstæðisflokksins, en um leið óska ég henni til hamingju með kjörið. Á þessum landsfundi Sjálfstæðisflokksins áttu sér stað mjög stór pólitísk tíðindi. Í ályktun flokksins segir, með leyfi forseta:

„Árið 2016 námu opinber útgjöld 45% af landsframleiðslu.“

Síðan segir í ályktuninni, og í því liggja tíðindin:

„Stefnt skal að því að útgjöld hins opinbera verði ekki hærri en 35% af landsframleiðslu.“

Hvað þýða þessar tölur, ágæti þingheimur? Að skera niður opinber útgjöld um 10 prósentustig af landsframleiðslu eins og Sjálfstæðisflokkur boðar núna þýðir niðurskurð upp á 260 milljarða kr. Annar forystuflokkurinn í þessari ríkisstjórn vill skera niður opinbera þjónustu um 260 milljarða kr. á næstu árum á sama tíma og þessi flokkur, og reyndar Vinstri græn einnig, segir ítrekað við þjóðina að hér eigi að ráðast í umfangsmikla innviðauppbyggingu, menntasókn og björgunarleiðangur heilbrigðiskerfisins.

Hér er hins vegar verið að boða blóðugan niðurskurð af slíkri stærðargráðu að ég hef aldrei séð annað eins, ekki einu sinni þegar við vorum að vinna okkur upp úr hruninu.

Ég vil því spyrja forystumanneskju þessa flokks og ráðherra nýsköpunarmála: Hvar mun niðurskurður lenda? Hvaða sjúkrahúsum ætlið þið að loka? Hvaða niðurskurður blasir við skólunum okkar? Hvaða laun munuð þið lækka? Hjúkrunarfræðinga? Kennara? Lögreglumanna? Hvernig mun þessi blóðugi niðurskurður gagnast öldruðum sem lifa við og undir fátæktarmörkum eða þeim 6 þúsund börnum sem lifa við fátækt í okkar samfélagi?

Þið verðið einfaldlega að svara þessu hér í þessum sal.