148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

boðaður niðurskurður opinberrar þjónustu.

[15:57]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Þetta eru ótrúleg svör. Hér er talað eins og ályktanir Sjálfstæðisflokksins séu meira til heimabrúks, svona málfundaræfingar og innstæðulausar með öllu. Auðvitað eru 260 milljarða niðurskurður blóðugur niðurskurður. En við fáum engin svör. Hvernig ætlar þessi flokkur, forystuflokkur í þessari ríkisstjórn, að ná þessu fram? Svo skulum við ekki gleyma því að Sjálfstæðisflokkurinn lofaði einn flokka hundrað milljarða kr. innviðauppbyggingu. Núna er hann að boða 260 milljarða kr. niðurskurð.

Mér sýnist Sjálfstæðisflokkurinn vera með tvær tegundir af hagstjórn. Hann er með vonda hagstjórn sem lýtur að því að lækka skatta og auka útgjöld á sama tíma og allir hagsmunaaðilar eru sammála um að gengur ekki upp. Svo er það hin ómögulega hagstjórn, það er sú hagstjórn sem við sjáum hér, að lofa 100 millj. kr. innviðauppbyggingu á sama tíma og þau ætla að skera niður um 260 milljarða í opinberri þjónustu.

Mér sýnist þessi ályktun vera sömuleiðis köld vatnsgusa fyrir kjósendur í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga sem eru nú fram undan. Hvernig ætla frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórnarkosningum að svara því hvernig þeir ætla að ná fram þessum niðurskurði? Hvaða leikskólum á að loka? (Forseti hringir.) Hversu mikið á að lækka laun kennara o.s.frv.? Þetta geta ekki bara verið orðin tóm. Þetta er stefna forystuflokks (Forseti hringir.) í ríkisstjórn. Hann þarf að standa við þess orð sín.