148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

frestun á framlagningu fjármálaáætlunar.

[16:36]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Það er til nokkuð sem er kallað Parkinson's law. Það var sett fram í gríni í The Economist árið 1955, og er nokkurt sannleikskorn í því.

Með leyfi forseta er þetta stutt, ég ætla að leyfa mér að fara með það fyrst á ensku:

„… work expands so as to fill the time available for its completion.“ (Forseti hringir.)

Sem þýðir (Gripið fram í: Já, þýða.) ... á ég ekki að þýða?

(Forseti (SJS): Þingmálið er íslenska.)

Já. Sem þýðir einfaldlega:

Hlutir, verkefni taka þann tíma sem þeim er úthlutað.

Ef starfsmenn fjármálaráðuneytisins og fjármálaráðherra fá þann tíma sem þeim er ætlað samkvæmt lögum munu þeir einfaldlega klára verkið á þeim tíma. Þetta snýst um að fara úr sex vinnudögum í átta, eða sjö í níu, eftir því hvernig talið er. Ég treysti starfsmönnum fjármálaráðuneytisins og fjármálaráðherra fullkomlega til að klára þetta verkefni í tíma. Því að ef þeir fá aukatíma munu þeir nota hann allan, bara eins og lögmálið segir til um.