148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

um fundarstjórn.

[17:02]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Frú forseti. Það var ekki ætlunin að draga þessa umræðu á langinn. En ég verð að segja að ég varð fyrir svo djúpstæðum vonbrigðum með svör hæstv. forseta áðan og varð einfaldlega að tjá þau hér. Ég tel þetta svo mikilvægt, þetta er nefnilega merkilegt plagg, merkileg lög sem við samþykktum, lög um opinber fjármál. Þau eru ákveðið agavald, eitthvað nýtt, nýjar vinnureglur og nýtt vinnuumhverfi varðandi alla umgjörð ríkisfjármála. Mér finnst það miður ef fólk ætlar að umgangast þau af léttúð, eins og fjármálaráðuneytið er að gera með þessu bréfi til þingsins. Mér finnst það sárgrætilegt. Þess vegna er þetta alvarlegt. Það er í fyrsta lagi verið að segja að við ætlum að brjóta lög. Svo kann vel að vera, eins og hv. þm. Pawel Bartoszek sagði áðan, að ríkisstjórnin sé einfaldlega ekki búin að koma sér saman um þetta.

Segið okkur það þá. Segið bara hreint út að þannig sé það. Eða eru þau kannski að bíða eftir hvaða málshættir koma upp úr páskaeggjunum? Hvað veit ég? Komið hreint fram og segið okkur af hverju þessi frestur þarf að vera. (Forseti hringir.) Ég segi skýrt: Farið að lögum. Ég vil að þingið og forsetinn komi í lið með okkur.