148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

hreinlætisaðstaða í Dyrhólaey.

245. mál
[17:09]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birgir Þórarinsson) (M):

Frú forseti. Dyrhólaey er einstök náttúruperla í Mýrdal, ekki síst vegna gatsins í klettinum sem blasir við frá vitanum á Háeynni og við þekkjum öll. Eyjan er friðlýst sem friðland samkvæmt náttúruverndarlögum og ein af fyrstu friðlýsingum á Íslandi. Það voru bændur sem höfðu frumkvæði í þeim efnum á sínum tíma.

Dyrhólaey hefur tilfinningalegt gildi fyrir marga, bæði fyrir Íslendinga og útlendinga sem kynnst hafa svæðinu og tengst því böndum. Álag á Dyrhólaey hefur vaxið jafnt og þétt enda er hún auglýst sem ein af helstu ferðamannastöðum landsins. Togstreita hefur ríkt um árabil um nýtingu eyjarinnar. Má þar nefna deilur um lendingarbætur, landamerki og lokun um varptíma fugla.

Vinna við deiliskipulag Dyrhólaeyjar hófst haustið 1998 að frumkvæði Náttúruverndar ríkisins. Ráðinn var til verksins landslagsarkitekt og var skipulagið unnið í samráði við Mýrdalshrepp, Siglingastofnun, Vegagerðina og Náttúruvernd ríkisins, síðar Umhverfisstofnun. Markmiðið með deiliskipulaginu var að bæta aðstöðu og þjónustu við ferðamenn á Dyrhólaey og stuðla að verndun umhverfis með hreinlætisaðstöðu, markvissri stígagerð, upplýsingamiðlun og fræðslu. Fjölmargar athugasemdir bárust í deiliskipulagsferlinu frá heimamönnum, m.a. á þann veg að samráð við ábúendur hafi verið svikið, að ekki hafi verið tekið tillit til þeirra heldur fyrst og fremst hugsað um ferðamenn. Náttúruvernd ríkisins vísaði því á bug.

Árið 2014 gaf Umhverfisstofnun út verndar- og stjórnunaráætlun fyrir Dyrhólaey og árið 2015 hófust framkvæmdir Rariks við lagningu rafmagnsstrengs vegna fyrirhugaðra framkvæmda við salernisaðstöðu. Framkvæmdin olli miklu raski og hafði hún ekki tilskilin leyfi. Vinnubrögðin í friðlandinu voru harðlega gagnrýnd. Mörgum heimamanni fannst sem ótal margt hefði farið úrskeiðis þegar kom að framkvæmdum í friðlandinu. Má þar nefna göngustíga, öryggisgirðingar og fleira og að ekki hafi verið tekið mark á heimamönnum.

Frú forseti. Fyrirspurn þessi snýr sérstaklega að salernisaðstöðunni sem Umhverfisstofnun hefur staðið fyrir byggingu á í eynni. Hún snýr að kostnaði við mannvirkið, bílastæðum, vegarlagningu og frágangi umhverfis bygginguna og ekki síst að byggingunni sjálfri og staðsetningu hennar. Staðsetningin var ákveðin af arkitekt og Umhverfisstofnun. Fjölmargir heimamenn, og reyndar ferðaþjónustuaðilar einnig, telja bygginguna vera of háa og lýti í umhverfinu, hún sé sjónmengun á þessum fallega stað.