148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

hreinlætisaðstaða í Dyrhólaey.

245. mál
[17:13]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir fyrirspurnina. Rétt til að rifja upp söguna þá var Dyrhólaey, líkt og hv. þingmaður nefndi, friðlýst sem friðland á grunni náttúruverndarlaga, samanber auglýsingu í Stjórnartíðindum nr. 101/1978. Í reglum friðlandsins er ákvæði þess efnis að Umhverfisstofnun geti lokað fyrir almenna umferð um Dyrhólaey á tímabilinu 1. maí til 25. júní í þeim tilgangi að vernda fuglalíf á varptíma.

Á síðari árum hefur verið aukin krafa um að halda eynni opinni fyrir umferð allt árið. Stofnunin hefur fengið fuglafræðing til að meta fuglalífið með tilliti til þess að halda eynni opinni á varptíma fugla. Er niðurstaðan sú, að mati Umhverfisstofnunar, að unnt sé að stýra umferð um eyna og þannig samþætta nýtingu og vernd. Að mati landvarðar hefur það tekist með ágætum. Þetta kallar auðvitað á meiri þjónustu, bæði landvarða og einnig uppbyggingu innviða.

Vegna fyrirspurnar hv. þingmanns um hreinlætisaðstöðu á Dyrhólaey var leitað til Umhverfisstofnunar sem hefur umsjón með friðlandinu í Dyrhólaey og byggist stærsti hluti svars míns á upplýsingum frá stofnuninni.

Framkvæmdir við nýtt bílastæði á Dyrhólaey hófust í nóvember 2016 og uppsetning salernishúss í apríl 2017. Salernishúsið, sem hannað var af arkitektum fyrirtækisins Gláma-Kím, tekur mið af hönnun salernishúss við Hverfjall í Mývatnssveit og byggir áætlun fyrirtækisins á þeirri framkvæmd. Áætlun hönnuða í júlí 2016 á kostnaði við bygginguna var 27 millj. kr., en raunkostnaður reyndist verða 49,5 millj. kr.

Þegar tilboð bárust í verkið, miðað við þá húsagerð sem hönnuðir höfðu lagt til, kom í ljós að um verulega vanáætlun var að ræða. Sem dæmi má nefna að tilboð í veggreiningar, glugga og hurðir hljóðaði upp á 10,3 millj. kr., en áætlunin var upp á 6,1 millj. kr. Þá fór vinna og efni við samsetningu eininga, einangrun, klæðningu á veggi, þak og gólf, ásamt frágangi, verulega fram úr áætlunum sem var 15,9 millj. kr., en raunkostnaður endaði í 28,3 millj. kr.

Salernið var tekið í notkun í september sl. Umhverfisstofnun sér alfarið um rekstur salernisins sem er opið allan sólarhringinn alla daga ársins og hefur stofnunin ákveðið að innheimta þjónustugjald að upphæð 200 kr. Gerir stofnunin ráð fyrir að gjaldið muni að mestu standa undir rekstrarkostnaði. Hins vegar gerir Umhverfisstofnun ekki ráð fyrir að tekjur geti skilað stofnkostnaði til baka miðað við tekjuspá 2018 hið minnsta, reyndar eru kannski ekki líkur á að svo verði í framtíðinni miðað við það verð sem tekið er fyrir þjónustuna.

Við staðarval og hönnun salernishússins naut stofnunin liðsinnis sérfræðinga fyrirtækisins Gláma-Kím, sem m.a. hefur hannað byggingar í Þingvallaþjóðgarði, og frá landslagsarkitektum fyrirtækisins Landslags, en það fyrirtæki vann deiliskipulag fyrir Dyrhólaey. Þess má geta að landslagsarkitektar fyrirtækisins hafa unnið víða á verndarsvæðum áður.

Umhverfisstofnun hefur bent á að framkvæmdir við lokafrágang hússins hafi dregist á langinn, m.a. vegna illviðra og annarra þátta, þar með talið vegna stöðvunar framkvæmdar á varptíma, töfum verktaka og slæmu tíðarfari. Þegar framkvæmdum verður lokið mun salernishúsið falla betur inn í landslagið ásamt göngustígum og bílastæði að mati Umhverfisstofnunar.

Vegna oft ólíkra sjónarmiða varðandi uppbyggingu innviða í náttúru landsins hefur Umhverfisstofnun leitast við að vera í góðu samstarfi við landeigendur. Vegna uppbyggingar salernishússins á Dyrhólaey hafði stofnunin samráð við landeigendur allt frá því hugmyndir landeigenda og ábúenda í Dyrhólahverfi komu fram um að bæta þyrfti salernisaðstöðu. Á það við bæði á skipulagsstigi og hönnunarstigi samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni. Samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar hafa landeigendur og sveitarfélagið ekki gert athugasemdir vegna staðsetningar, hönnunar og útlits mannvirkja.

Verið er að leggja lokahönd á vinnu við torfhleðslu framan við salernishúsið og við bílastæðið ásamt aðlögun landslags umhverfis bygginguna að húsinu þannig að það muni falla betur inn í umhverfið. Kostnaður vegna bílastæðis, tenging við gangstíga, torfhleðslur og annar frágangur lóðar er áætlaður 48,8 millj. kr., en af þeirri fjárhæð er óframkvæmt fyrir um 17 milljónir. Annar kostnaður, svo sem vegna heimtaugar, borun fyrir vatni, ásamt dæluhúsi, rotþró og siturlögn, er 13,8 millj. kr.

Ég mun koma að seinni hluta svaranna (Forseti hringir.) í seinna svari mínu.