148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

vinna við réttaröryggisáætlun.

338. mál
[17:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra: Hversu langt er vinna við gerð réttaröryggisáætlunar komin innan ráðuneytisins? Hvenær telur hæstv. ráðherra að þeirri vinnu allri muni ljúka? Ég veit að vinnan er komin mislangt á veg, en það er mikilvægt að fá að vita hvar þetta mikilvæga mál er statt. Það á rætur að rekja til ársins 2015, minnir mig, þegar rætt var innan þáverandi ríkisstjórnar að móta og setja á laggirnar réttaröryggisáætlun. Hún tekur til löggæslunnar, ákæruvaldsins, fullnustuáætlunar og dómstólanna.

Með þeirri áætlun var í fyrsta sinn unnið að heildstæðri nálgun varðandi réttarvörslukerfið, framtíðarskipan þess, og síðan það, sem er ekki síður mikilvægt, fjárveitingar til réttarvörslukerfisins og langtímaáætlanir mótaðar við kerfið og stofnanir. Varðandi það sem við höfum verið að ræða í dag, þ.e. fjármálaáætlun og -stefnu, skiptir máli að sjá í þeirri áætlun hvar tekið er tillit til þessara fjögurra áætlana.

Á sínum tíma sagði forveri hæstv. ráðherra í starfi að verið væri að móta framtíðarsýn réttarvörslukerfisins, einstakra þátta, og setja mælanleg markmið. Með því væri verið að setja fram stefnumótun sem samræmdist vel þeirri langtímahugsun sem við erum að reyna að koma inn í fjármál ríkisins, eins og ég gat um áðan.

Ég veit að löggæslan, ákæruvaldsáætlanir og fullnustuáætlun eru allar svo gott sem klárar, en það er eitthvað lengra í að áætlun um dómstólana klárist, kannski út af ýmsu sem gengið hefur á á liðnum misserum. Það var ekki hugsunin á þeim tíma að bregðast við einhverjum vanda sem þá var, mikið álag var á dómstólunum og á löggæslunni. Þar þarf meira fjármagn. En þarna var reynt að gefa skýra framtíðarsýn á þessum mikilvægu sviðum í samfélaginu og var mikil vinna lögð í það.

Mér leikur forvitni á að vita hvar nákvæmlega þessar áætlanir eru staddar eftir að hæstv. ráðherra tók til starfa. Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að fylgja þeim eftir? Ég tel þær vera mjög brýnt hagsmunamál, eitthvað sem er gott að við vitum að fylgt sé eftir þó að ríkisstjórnir komi og fari.