148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

samræmd próf og innritun í framhaldsskóla.

328. mál
[18:15]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir mjög góðar umræður og athugasemdir sem komu hérna fram. Ég ætla fyrst að nefna varðandi prófin sem voru tekin 2016 að ég þarf að skoða þau betur. Við erum að klára þessa reglugerðarbreytingu bara þessa dagana og ég vonast til þess að við munum gera aðeins betur grein fyrir því á heimasíðunni okkar en þetta er nokkuð sem þarf að athuga hvort nái til þessara prófa eða ekki. Ég hef ekki svarið akkúrat núna og vil ekki tjá mig um það fyrr en ég fæ skýrari lögfræðilega túlkun á málinu. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir þessu þannig að ég þakka kærlega fyrir ábendinguna.

Ég er sammála því að það er gríðarlega mikilvægt að hafa fyrirsjáanleika. Við þurfum að eyða óvissu. Við mörg hver sem erum að tjá okkur um það þegar prófin voru færð frá 10. bekk yfir í 9. bekk — ég var reyndar í 9. bekk þegar ég tók þessi próf, vil taka það fram — tjáum okkur oft eins og þetta séu lokaprófin en því má ekki gleyma að þessi próf sem voru færð niður í 9. bekk eru könnunarpróf og eiga ekki að vera inntökupróf.

Allir sem hafa tjáð sig um þetta í skólasamfélaginu og á þessum stóra samráðsvettvangi eru á þessari skoðun. Ég held að verkefnið fram undan núna sé að fara betur yfir skipulagið, tilganginn og hvernig þetta nýtist skólakerfinu okkar sem best. Ég vil líta til þeirra ríkja sem hafa staðið sig einna best og hafa á síðustu árum og áratugum náð að efla menntakerfi sitt. Það er alveg ljóst að við þurfum að gera betur. Þrátt fyrir þetta samræmda klúður vil ég reyna að nýta það líka til að ná betur utan um þetta verkefni og auka fyrirsjáanleika í menntakerfinu okkar. (Forseti hringir.)

Varðandi VIS-greinarnar, verk-, iðn- og starfsnám, höfum við aukið fjármuni til þeirra og ég get komið frekari og betri upplýsingum til hv. þingmanns þess efnis.