149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

Bankasýsla ríkisins.

[15:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að ákvæðið fellir ekki lögin sjálf úr gildi. Lögin eru í gildi, lögin hafa ekki takmarkaðan gildistíma. Það má segja sem svo að ákvæðið sem um ræðir lýsi áformum um að því hlutverki sem stofnuninni var falið skyldi vera lokið innan fimm ára. En það gekk ekki eftir. Enn lifir stofnunin og hún er kölluð hingað reglulega til þingsins til skrafs og ráðagerða, til að veita umsagnir. Hún sinnir sínum störfum eins og menn þekkja og lögin eru í gildi. En eftir situr þetta ákvæði sem á sér þessar sögulegu skýringar.

Svo ég svari spurningunni beint: Ég er þeirrar skoðunar að þau verkefni sem stofnunin sinnir séu lögmæt og á grundvelli þeirra laga sem eru í gildi, þrátt fyrir þetta orðalag í lögunum. (Forseti hringir.) En það er hins vegar rétt að færa það til betri vegar með frumvarpinu sem komið er fram.