149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:04]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér fara á eftir atkvæðagreiðslur um frumvarp um veiðigjald. Það er nauðsynlegt vegna þess að nú um áramót falla niður núgildandi lög um veiðigjald, en við erum öll sammála um að leggja á veiðigjald á næsta ári. Við höfum ekki efni á að sleppa því. En í þessu frumvarpi er m.a. verið að breyta stjórnsýslu veiðigjalds með það að markmiði að draga úr töf við meðferð upplýsinga. Ég tel að frumvarpið feli í sér að álagning veiðigjalda verði gagnsærri og að forsendur fyrir þeim gjöldum endurspegli upplýsingar sem eru nær í tíma Er verðið byggt á upplýsingum frá ríkisskattstjóra, auk skýrslna frá Fiskistofu um aflaverðmæti.

Breytingartillögur meiri hluta atvinnuveganefndar snúa að því að gæta að minni og millistórum útgerðarflokkum með því að styrkja frítekjumarkið enn frekar. Hefur frumvarpið fengið mjög góða umfjöllun í nefnd sem fékk til sín fjölda gesta og fór yfir málið, auk þess sem nefndinni bárust á fimmta tug umsagna.