149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019--2023.

345. mál
[17:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands til næstu fimm ára, þ.e. fyrir tímabilið 2019–2023. Þetta er í þriðja sinn sem slík þingsályktunartillaga er lögð fram. Þingsályktunartillagan er lögð fram í samræmi við 5. gr. laga nr. 121/2008, með síðari breytingum, um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Þar segir að fimmta hvert ár skuli ráðherra leggja fram tillögu til þingsályktunar á Alþingi um stefnu stjórnvalda um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands til fimm ára í senn, þar sem fram koma markmið og áherslur Íslands í málaflokknum.

Með þingsályktunartillögunni eru þrjú fylgiskjöl. Fyrst er skjalið „Aðgerðaáætlun 2019–2020“ sem lýsir nánar fyrirhuguðu starfi í þróunarsamvinnu. Þessu næst er umsögn þróunarsamvinnunefndar og síðast skýrsla um framkvæmd þingsályktunar um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2013–2016.

Umfjöllun Alþingis um fyrri áætlanir sýndi að það ríkir jákvæð samstaða í kringum þennan málaflokk og að þingheimur vill vanda vel til verka þegar kemur að þróunarsamvinnu. Það er fagnaðarefni, enda er þróunarsamvinna afar mikilvægur málaflokkur. Ekki einungis er um mikla fjármuni að ræða heldur jafnframt starf sem skiptir sköpum fyrir fjölda fólks og getur jafnvel skilið milli lífs og dauða.

Þróunarsamvinnustefnan, eins og við nefnum hana í daglegu tali, er leiðarljós íslenskra stjórnvalda á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Hún felur í sér skýra markmiðasetningu og forgangsröðun þar sem lögð er áhersla á að starf íslenskra stjórnvalda skili árangri á afmörkuðum sviðum. Stefnan byggir á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og miðar að því að draga úr fátækt og hungri og stuðla að velferð á grundvelli mannréttinda, kynjajafnréttis og sjálfbærrar þróunar. Í stefnunni eru lögð fram tvö meginmarkmið sem miða annars vegar að uppbyggingu félagslegra innviða og starfi í þágu friðar og hins vegar að verndun jarðarinnar og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda.

Sem fyrr er fjallað um málaflokkinn sem eina heild, hvort sem um er að ræða tvíhliða þróunarsamvinnu í samstarfslöndum, svæðasamstarf, stuðning við áherslulönd og fjölþjóðlegar stofnanir eða verkefni á vegum félagasamtaka.

Stefnan er áþekk fyrri áætlunum hvað varðar hugmyndafræðilegan grunn og framkvæmd en endurspeglar þær breytingar sem orðið hafa í alþjóðlegri þróunarsamvinnu á síðustu misserum. Ber þar hæst heimsmarkmiðin, Parísarsamkomulagið um loftslagsmál, þriðju alþjóðaráðstefnuna um fjármögnun þróunarsamvinnu í Addis Ababa og leiðtogafund um mannúðaraðstoð sem haldinn var í Istanbúl. Einnig byggist stefnan á tillögum sem komu fram í jafningjarýni þróunarsamvinnunefndar OECD/DAC á þróunarsamvinnu Íslands frá árinu 2017 og skýrslu stýrihóps um utanríkisþjónustu til framtíðar frá sama ári.

Þróunarsamvinnustefnan er í fyrsta sinn með formlegum hætti mannréttindamiðuð sem felur í sér að unnið er að mannréttindum með málsvarastarfi, samþættingu og sértækum aðgerðum í þágu mannréttinda. Verða mannréttindi því höfð til hliðsjónar þegar verkefni eru mótuð, framkvæmd og metin. Með því viljum við tryggja að verkefni Íslands í þróunarsamvinnu stuðli að og verndi mannréttindi.

Jafnréttismálin hafa lengi verið áherslumál í þróunarsamvinnu Íslands. Nú er ætlunin að draga þau mál sérstaklega fram og er enn ríkari áhersla lögð á jafnréttismálin sem eru komin inn sem sérstakt markmið undir uppbyggingu félagslegra innviða.

Umhverfis- og loftslagsmál hafa jafnframt mikið vægi í stefnunni, bæði sem þverlægt málefni og einnig sem sérstakt markmið. Líkt og fyrr leggur Ísland ríka áherslu á sjálfbæra orku, þá sérstaklega jarðhita þar sem íslensk sérþekking hefur nýst í verkefnum undanfarin ár. Enn fremur er landgræðsla komin inn sem sérstakt áherslusvið undir sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda.

Síðast en ekki síst er lögð áhersla á samstarf við atvinnulífið í stefnunni. Eins og alþjóðasamfélagið hefur bent á, og einnig kom fram í athugasemdum OECD við rýni á þróunarsamvinnu Íslands, þarf atvinnulífið að leggja sitt af mörkum til að heimsmarkmiðunum verði náð fyrir árið 2030.

Meginmarkmiðið með framlagi Íslands til þróunarsamvinnu er að draga úr fátækt og stuðla að atvinnusköpun og viðvarandi sjálfbærum hagvexti í þróunarlöndum til að leggja grunn að aukinni velsæld. Aðkoma atvinnulífsins sem býr yfir frumkvæði og margs konar sérþekkingu sem nýst getur við að leysa flókin verkefni er mikilvægur þáttur í þessari uppbyggingu. Í nýrri stefnu er því lögð áhersla á að stofnanir og atvinnulífið hér á landi styðji við sjálfbæra uppbyggingu í þróunarlöndum. Slíkt samstarf byggir þó alltaf á forsendum viðtökuríkja.

Framkvæmd þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar fer áfram fram í gegnum svæðasamstarf og samstarf við samstarfslönd, áherslulönd, fjölþjóðastofnanir og félagasamtök.

Tvíhliða samstarfslönd í þróunarsamvinnu Íslands eru eftir sem áður Malaví og Úganda þar sem við byggjum á þeim góða árangri sem náðst hefur með langvinnu samstarfi. Í tvíhliða samstarfi okkar leggjum við áfram áherslu á að stuðningurinn fari beint til fátæks fólks í Malaví og Úganda. Áhersla er á að bæta grunnþjónustu við fátæk samfélög í tilteknum héruðum í löndunum tveimur sem felur í sér aðgang að vatni, bætta heilbrigðisþjónustu og aukin gæði menntunar yngstu barna.

Þetta er gert í náinni samvinnu við héraðsyfirvöld á þeirra eigin forsendum. Með því að einblína á afmörkuð svæði teljum við að framlag Íslands nýtist betur. Við köllum þetta héraðsnálgun og samkvæmt óháðri erlendri úttekt, sem kynnt var fyrr á þessu ári, virðist verulegur árangur hafa náðst með þessari aðferð.

Tvíhliða samstarfi við stjórnvöld í Mósambík lauk í lok árs 2017 og frá áramótum 2018 hefur stuðningur við uppbyggingu í Mósambík falist í framlögum til fjölþjóðastofnana og annarra aðila sem þar starfa. Mósambík breytist því úr tvíhliða samstarfslandi í áhersluland. Sú ákvörðun var tekin eftir ítarlega greiningarvinnu á árunum 2014–2016, að teknu tilliti til umfangs þróunarsamvinnu við landið, fjölda framlagsríkja, mats á mikilvægi þróunarframlaga Íslands og stjórnarfars. Önnur áherslulönd Íslands í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð eru Afganistan og Palestína.

Ísland hefur á undanförnum árum unnið að svæðaverkefnum í 13 löndum í Austur-Afríku á sviði jarðhita þar sem íslensk sérþekking hefur nýst vel. Ætlunin er að nýta frekar möguleika þessarar nálgunar og er Ísland um þessar mundir að hefja svæðasamstarf í Vestur-Afríku á sviði sjávarútvegs þar sem samstarfsríki hafa óskað eftir að Ísland miðli sérþekkingu sinni á sviði sjávarútvegs.

Við munum áfram taka þátt í fjölþjóðlegu samstarfi og leggja áherslu á stuðning við UNICEF og UN Women, auk þess sem Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna, UNFPA, er ný áherslustofnun Íslands. Starf stofnunarinnar samræmist mjög vel áherslum Íslands á sviði kynjajafnréttis, heilbrigðismála og kyn- og frjósemisheilbrigðis og -réttinda. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, kemur einnig inn sem áherslustofnun á sviði mannúðaraðstoðar, en stofnunin gegnir lykilhlutverki þegar kemur að því að bregðast við þeim gríðarlega flóttamannavanda sem heimurinn stendur frammi fyrir.

Þá munum við áfram leggja áherslu á samstarf við Alþjóðabankann, og mun Ísland taka við formennsku í kjördæmissamstarfi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna hjá Alþjóðabankanum um mitt ár 2019 til tveggja ára.

Einnig verður áfram lögð áhersla á að byggja upp færni einstaklinga og styrk stofnana í þróunarríkjum með starfsemi Jafnréttisskólans, Jarðhitaskólans, Landgræðsluskólans og Sjávarútvegsskólans.

Samstarf við félagasamtök er eftir sem áður þýðingarmikill þáttur í þróunarstarfi Íslands, enda eru þau mikilvægur hlekkur í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og veitingu mannúðaraðstoðar. Til að tryggja samræmi er í þróunarsamvinnustefnunni vísað til fimm ára fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar um aukin framlög til þróunarsamvinnu en gert er ráð fyrir að framlögin aukist á næstu árum og nemi 0,35% af vergum þjóðartekjum árið 2022.

Heildarframlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu, þ.e. bæði framlög sem falla undir málefnasviðið utanríkismál og önnur málefnasvið, eru áætluð um 8 milljarðar kr. 2019, um 0,28% af vergum þjóðartekjum, og hækka því samtals um nálægt 1 milljarð frá fjárlögum 2018.

Veruleg hækkun varð einnig á framlögum til þróunarsamvinnu á tímabilinu 2013–2017. Árið 2013 námu þau rúmlega 4,3 milljörðum, þ.e. 0,23% af vergum þjóðartekjum, og árið 2017 voru framlögin tæplega 7,3 milljarðar, þ.e. 0,28% af vergum þjóðartekjum.

Áfram verður lögð rík áhersla á að framlögin séu vel nýtt og að sýnt sé fram á árangur af starfi Íslands á sviði þróunarsamvinnu, en því fylgir mikil ábyrgð að ráðstafa opinberum framlögum til þróunarmála.

Við fylgjumst með framgangi verkefna og árangri með kerfisbundnum hætti. Það á við um allt þróunarstarf sem íslensk stjórnvöld veita framlög til, allt frá verkefnum í tvíhliða samstarfslöndum til verkefna fjölþjóðastofnana. Við berum enda mikla ábyrgð þegar kemur að því að tryggja að þeir sem njóta góðs af aðstoðinni fái eins góðan stuðning og kostur er við að brjótast út úr fátækt og til betra lífs.

Ég legg til, virðulegi forseti, að tillögu þessari verði vísað til hv. utanríkismálanefndar að lokinni þessari umræðu.