150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

almannatryggingar.

437. mál
[17:10]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vildi koma hingað upp til að þakka fyrir þessa umræðu og svara þeim spurningum sem beint var til mín, sérstaklega varðandi það hvernig við hefðum fundið út 50%. Þegar talað er um að taka hluta af lífeyri þarf einhvers staðar að draga línuna. Var 50% rétt? Áttu það að vera 60% eða 55%? Það sem horft var til þarna var m.a. að þetta er það viðmið sem notað er í B-deild LSR. Þar er talað um 50% starf þegar verið er að tala um töku lífeyris. Það má segja að við séum að horfa til þess sem gerist í lífeyrissjóðunum og samræma svolítið og láta þetta tala meira saman. Það má auðvitað skoða hvort það ættu að vera 50% eða 55% en við erum að tala um að fara í töku á hluta af lífeyri. Einhvers staðar þarf að draga línu í því. En hvar talan er, það má skiptast á skoðunum um það. Það var horft til þess sem er viðmið hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

Síðan spurði hv. þingmaður að því hvernig við hefðum fundið út 600.000 kr. og 325.000 kr. 600.000 kr. eru einfaldlega miðgildi launa þannig að 300.000 kr. eru 50% af miðgildi launa og svo bætast við 25.000 kr. sem eru hið almenna frítekjumark. Þannig voru þessar 325.000 kr. fundnar út. 600.000 kr. eru miðgildi launa, 300.000 eru 50% af miðgildi launa og síðan bætast við 25.000 kr. þannig að þessar tölur eiga sér þær skýringar og bakgrunn.

Varðandi það sem hv. þm. Inga Sæland kom inn á og laut eiginlega mest að tillögu sem Flokkur fólksins lagði fram og var samþykkt á þingi, er það annað mál en það sem hér er til umfjöllunar vegna þess að hér erum við bara að ræða töku hálfs lífeyris. Mál Flokks fólksins laut að skerðingum. Þar erum við einfaldlega að vinna eftir nákvæmlega þeirri þingsályktunartillögu sem Flokkur fólksins lagði fram og var samþykkt á þinginu. Við erum búin að semja við óháðan aðila sem er að taka þetta út eins og þingsályktunin kvað skýrt á um, að við ættum að ráða óháðan aðila til að taka þetta út. Ef það sýndi sig í óháðri úttekt að kostnaðurinn væri enginn fyrir ríkissjóð þá ætti ráðherra að leggja fram frumvarp á vorþingi. Þannig að við erum bara að vinna eftir því. Niðurstöður frá Capacent munu líta dagsins ljós í byrjun nýs árs þannig að við stöndum við það sem þingmenn lofuðu á þingi með öllum greiddum atkvæðum.

Svo vil ég bara þakka fyrir umræðuna og hvetja nefndina til góðra verka í þessum málum sem öðrum.