150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

heilbrigðisþjónusta.

439. mál
[17:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu en frumvarpið er lagt fram til að laga lög um heilbrigðisþjónustu að heilbrigðisstefnu sem Alþingi samþykkti í júní sl. Þannig er ætlunin að lög um heilbrigðisþjónustu endurspegli þær áherslur sem þegar hafa verið samþykktar í þinginu og koma fram í heilbrigðisstefnu. Markmiðið með frumvarpinu er að skilgreina betur þjónustustig, hlutverk og ábyrgðarsvið heilbrigðisstofnana landsins og skapa þannig traustan grundvöll fyrir samhæfingu heilbrigðisþjónustu í landinu og tryggja að landsmenn hafi aðgang að sem bestri þjónustu. Að auki er frumvarpinu ætlað að einfalda lögin og gera þau aðgengilegri.

Með heilbrigðisstefnu hefur verið mótuð framtíðarsýn fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu til ársins 2030. Eitt af markmiðum stefnunnar er að skapa heildrænt kerfi sem ætlað er að tryggja samfellda þjónustu við notendur á réttu þjónustustigi hverju sinni og gæta að hagkvæmni og jafnræði við veitingu heilbrigðisþjónustu. Í þeim tilgangi skal heilbrigðisþjónusta m.a. skilgreind sem fyrsta, annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónusta. Sú skipting er í samræmi við skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á heilbrigðisþjónustu. Í gildandi lögum er heilbrigðisþjónusta skilgreind sem almenn eða sérhæfð heilbrigðisþjónusta en slíkar skilgreiningar á heilbrigðisþjónustu eru almennt á undanhaldi þar sem heilbrigðisþjónusta er nú sannarlega að langmestum hluta sérhæfð. Rétt er þó að taka fram að þótt heilbrigðisþjónusta sé skilgreind á ákveðnu stigi getur flokkunin verið breytileg eftir eðli og aðstæðum hverju sinni. Endurhæfingu er t.d. mögulegt að veita á öllum stigum heilbrigðisþjónustu en flokkunin fer þá eftir eðli þjónustunnar og staðsetningu af hverju sinni.

Undir fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu fellur sú þjónusta sem alla jafna er veitt á heilsugæslustöðvum. Um er að ræða meðferð sjúkdóma, líknarþjónustu, heilsuvernd og forvarnir og bráða- og slysamóttöku, svo eitthvað sé nefnt. Heilsugæslunni er ætlað stórt hlutverk í heilbrigðisþjónustu við landsmenn og hún á að vera fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu. Fyrsta stigs heilbrigðisþjónusta á að tryggja landsmönnum alhliða heilbrigðisþjónustu eins nálægt heimahögum og mögulegt er, en í því samhengi þarf að huga að fjarheilbrigðisþjónustu og skilvirkari sjúkraflutningum til að bæta aðgengi íbúa í hinum dreifðari byggðum landsins að heilbrigðisþjónustu. Undir annars stigs heilbrigðisþjónustu fellur framhaldsþjónusta við sjúklinga en með því er átt við að annað stigið tekur við þegar ekki er hægt að fullnægja þörfum sjúklings á heilsugæslu eða hjá öðrum veitanda fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu. Annars stigs þjónusta er veitt á sjúkrahúsum um allt land, á starfsstofum heilbrigðisstarfsmanna og í sérhæfðum teymum. Öllum landsmönnum skal tryggður nauðsynlegur aðgangur að annars stigs heilbrigðisþjónustu og þar gegna Sjúkratryggingar Íslands veigamiklu hlutverki sem kaupandi þjónustunnar fyrir hönd íslenska ríkisins. Þróun síðustu ára á höfuðborgarsvæðinu hefur leitt til þess að annars stigs heilbrigðisþjónusta er að verulegu leyti veitt af sérfræðingum á einkareknum starfsstöðvum. Á landsbyggðinni hefur þessi þjónusta hins vegar verið veitt á sjúkrahúsum eða með sérstökum samningum við sérgreinalækna. Markmiðið er að öllum landsmönnum sé tryggt aðgengi að sérgreinaþjónustu og þarf í því sambandi sérstaklega að huga að því að tryggja stuðning Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri við heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni.

Undir þriðja stigs heilbrigðisþjónustu fellur sérhæfð þjónusta sem krefst bæði sérstakrar kunnáttu og oft einnig háþróaðrar tækni og dýrra, vandmeðfarinna lyfja. Þá krefst hún einnig aðgengis að gjörgæslu. Á Íslandi er þessi þjónusta í langflestum tilvikum bundin við Landspítala en að einhverju leyti er hún einnig veitt á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Í frumvarpinu er að auki lagt til að ákvæðum laga um stjórn heilbrigðisstofnana verði breytt. Í gildandi lögum er ekki einungis fjallað um hlutverk og ábyrgð forstjóra heilbrigðisstofnanana heldur einnig um innra starf og skipulag stofnana, svo sem hlutverk yfirlækna, deildarstjóra og annarra fagstjórnenda. Þá er kveðið á um að forstjórar skuli skipa framkvæmdastjórn og hvernig hún skuli skipuð. Auk þess er í gildandi lögum kveðið á um að ráðherra skuli staðfesta tillögur forstjóra heilbrigðisstofnunnar að skipuriti stofnunar. Í heilbrigðisstefnunni er lögð áhersla á að ábyrgð og valdsvið stjórnenda heilbrigðisstofnana sé vel skilgreint og miðar hún einnig að valddreifingu þannig að forstjóra heilbrigðisstofnunar ber að ákveða hvernig þeim markmiðum skuli náð sem kveðið er á um í erindisbréfi til hans frá ráðherra og hlutverki stofnunarinnar eins og því er lýst í reglugerð. Gildandi lög um heilbrigðisþjónustu setja þannig forstjórum heilbrigðisstofnana þrengri skorður en heilbrigðisstefnan gerir ráð fyrir. Þessum breytingum er ætlað að tryggja að forstjóri geti tekið og eigi að taka fulla ábyrgð á rekstri og skipulagi sinnar stofnunar.

Í frumvarpinu eru ákvæði um Landspítala og Sjúkrahúsið á Akureyri stytt en í gildandi lögum eru ákvæðin ítarleg. Lög um heilbrigðisþjónustu eru rammalöggjöf um skipulag heilbrigðisþjónustu í landinu og rétt að ákvæði um atriði eins og markmið og hlutverk heilbrigðisstofnana séu fremur sett fram í reglugerðum. Hugsunin að baki fyrrgreindum breytingum er ekki sú að gera efnislegar breytingar á hlutverki eða skyldum sem hvíla á stofnunum í raun en verði frumvarpið að lögum mun koma til setningar reglugerða sem munu taka á þeim þáttum umfram það sem frumvarpið gerir fyrir.

Virðulegi forseti. Að lokum er lagt til í frumvarpinu að á öllum heilbrigðisstofnunum skuli starfa sameiginlegt fagráð fagstétta heilbrigðisstarfsmanna sem starfi á umræddri stofnun en í gildandi lögum er kveðið á um að á háskólasjúkrahúsi og kennslusjúkrahúsi skuli starfa læknaráð og hjúkrunarráð. Frumvarpið felur þannig í sér þær breytingar að á öllum heilbrigðisstofnunum sem reknar eru af ríkinu skuli vera starfandi fagráð og að það skuli myndað af þeim fagstéttum sem starfa innan viðkomandi stofnunar. Ráðherra heilbrigðismála er síðan gert skylt að setja í reglugerð nánari leiðbeiningar um hlutverk og skipan umræddra fagráða. Eitt af markmiðum heilbrigðisstefnu er að heilbrigðisþjónustan skuli einkennast af teymisvinnu starfsstétta og hún miðar að því að það sé samstarf milli stofnana, teymisvinna og þverfagleg heildræn nálgun í vinnubrögðum heilbrigðisstarfsfólks með það fyrir augum að tryggja gæði og samfellu í þjónustunni. Þannig má segja að í raun sé verið að færa heilbrigðislöggjöfina að þessu leyti upp til nútímans þar sem hver heilbrigðisstétt hefur sitt hlutverk í þéttum vef heilbrigðisþjónustunnar.

Ákvæði í gildandi lögum um skipan læknaráðs sem leita beri til um ákvarðanir varðandi læknisþjónustu og hjúkrunarráðs varðandi hjúkrunarþjónustu samræmist sem sé ekki því markmiði heilbrigðisstefnunnar sem fram hefur komið að því er varðar þverfaglega vinnu og teymisvinnu. Með þessum breytingum er lagt til að það sé leitast við að heilbrigðisstéttir komi að málum í samvinnu hver við aðra með það að markmiði að sjúklingar fái sem besta þjónustu. Í því samhengi þykir rétt að læknaráð og hjúkrunarráð í hefðbundnum skilningi verði lögð niður en í stað þeirra komi eitt sameiginlegt fagráð fagstétta heilbrigðisstarfsfólks hverrar heilbrigðisstofnunar forstjóra til ráðgjafar. Fagráðinu er ætlað að vera stjórn heilbrigðisstofnunar til stuðnings og ráðgjafar þegar kemur að mikilvægum ákvörðunum, bæði sem varða innra starf en ekki síður skipulag heilbrigðisþjónustunnar.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginefni þess frumvarps sem hér er til umræðu og leyfi mér að leggja til að að lokinni 1. umr. verði því vísað til velferðarnefndar og 2. umr.