150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[19:07]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er meginforsenda Hvassahraunsskýrslunnar að tveir flugvellir séu á suðvesturhorninu, það er það sem verið er að hugsa um. Það sem er líka merkilegt við það sem þar kemur fram er að þetta er 20 ára prósess. Þá er næsta vers raunverulega að tryggja veru Reykjavíkurflugvallar í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar og verja þá stöðu flugvallarins til 2040 að lágmarki meðan farið er í jafn stórar hugmyndir og við ræddum áðan um stærstu framkvæmd Íslandssögunnar, þannig að það sé komið til skila.

Ég er sammála um mikilvægi ýmissa lendingarstaða eins og Fagurhólsmýrar á suðurströndinni, og reyndar hef ég líka viljað skoða lendingarstað í nágrenni við Kirkjubæjarklaustur. Þarna hafa orðið stór rútuslys og skoða þyrfti þann möguleika með öryggismál í huga að þarna séu lendingarstaðir sem geta t.d. tekið Twin Otter sjúkravélina, Mýflug, og sinnt því. En að sama skapi, eins og ég rakti áðan, gæti gervihnattaleiðsagan skapað gríðarlega möguleika hvað varðar öryggi landsins. Ekki þarf að vera með lendingarbúnað á jörðu niðri heldur nota gervihnattatæknina, leiðsöguna, og þá er hægt er að búa til aðflug fyrir þyrlur og flugvélar hér og þar til að tryggja aðkomu á einhverjum svæðum. Við getum haft allt annað öryggiskerfi í landinu sem tengist flugi og nýtingu þess til að verja öryggishagsmuni landsins. Ég er sammála mikilvægi þess.

Hins vegar er rétt að benda á skýrslu sem kom frá Isavia í lok síðasta árs. Þar er, í 8–9 síðna skýrslu, farið kerfisbundið yfir ástandið á öllum flugvöllum í kringum landið, og þar er gefin falleinkunn. Ég benti á það í ræðu minni að frá 2011, þegar varaflugvallagjaldið var tekið af og sett inn á Keflavíkurflugvöll, þessi milljarður á ári, hefur kerfið hrunið; viðhald og nýframkvæmdir á öllu flugvallarkerfinu hér innan lands, þar er rótin.