150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[19:20]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins um alþjóðlegt meðaltal fjármögnunar í samgöngum. Ég veit að við erum víða undir alþjóðlegum stöðlum þegar kemur að einu og öðru. Kannski í menntamálum eða einhverju slíku. Þar er jú miðað við höfðatölu. Nú er spurningin um alþjóðlegt meðaltal þegar kemur að fjármögnun samgangna. Við erum einhvers staðar undir, gott og vel. En þá spyr ég á móti og vil gjarnan fá hv. þingmann til að svara: Er verið að miða við höfðatölu? Er miðað við þjóðartekjur eða er miðað við lengd vegakerfisins? Mér er til efs að nokkurt annað land með svipaða íbúatölu miðað við flatarmál hafi annað eins vegakerfi í kílómetrum talið og Ísland. Ég held að hvernig sem menn reikna þetta sé það ekkert skrýtið og ekkert óeðlilegt að okkur gangi ekki mjög vel að fjármagna nýframkvæmdir og viðhald á þessu 12.000 km vegakerfi sem ég minntist á í ræðu áðan. Ég vil svo gjarnan fá að heyra frá hv. þingmanni aðeins meira um þetta meðaltal.