150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034.

435. mál
[21:02]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er alveg klárt og ég held að við séum öll sammála um að það vantar fjármagn þarna inn. Eins og kom fram hjá hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni varðandi gjaldtökuna, og hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson hefur áður rætt við mig um hana, þá hvarf gjaldið hvarf auðvitað ekki, þ.e. peningarnir. Þeir fóru í uppbygginguna í Keflavík, skiluðu sér ekki í uppbyggingu á varaflugvöllunum. Við höfum velt fyrir okkur að koma á einhvers konar uppbyggingargjaldi fyrir varaflugvallakerfið, ekki á næsta ári heldur kannski frá árinu 2021. Við erum í ágætissamtali við aðila um það, Isavia, fjármálaráðuneytið og fleiri. En við þurfum jafnframt, og ég tek undir það og ætla bara að segja það hér, það er mín skoðun, að leita allra leiða til að finna meira fjármagn í næstu fjármálaáætlun til að forgangsraða í flugið vegna þess að það er þörf á því.