150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034.

435. mál
[21:17]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Frú forseti. Við höldum áfram að ræða samgönguáætlun, nú áætlun til næstu 15 ára, til 2034. Ekki að ég ætli að fjalla um þessa áætlun ofan í kjölinn. Til þess hef ég ekki kynnt mér hana nægjanlega. En það liggur fyrir að umhverfis- og samgöngunefnd á fyrir höndum mikla vinnu við að fjalla um þessa áætlun, endurraða verkefnum og leggja til eitt og annað sem til úrbóta gæti horft. Á ég von á vandaðri vinnu í nefndinni.

Ég hafði nefnt í ræðu fyrr í kvöld að það sem einkennir þessa áætlun væri helst að flest stærri verkefni eru sett töluvert fram í tímann þannig að flest þeirra verða á höndum næstu eða þarnæstu ríkisstjórnar eða jafnvel enn þá lengra inn í framtíðina. Margar mikilvægar og brýnar framkvæmdir eru ekki á dagskrá á næstu misserum eða árum. Ég ætla aðeins að fara betur ofan í það sem ég ræddi í minni fyrri ræðu um vandamál sem steðja að framkvæmdum. Við stöndum frammi fyrir því, frú forseti, að flækjustig allra framkvæmda er orðið slíkt að stórkostlegur kostnaður leggst á framkvæmdir löngu áður en fyrsta skóflustungan er tekin og er stór hluti kostnaðar þá þegar fallinn á verkið. Þetta er eitthvað sem þarf að skoða. Það sem ég nefndi áðan ætla ég að fara aðeins dýpra ofan í. Ég held að það sé mikilvægt að leita nýrra leiða hvað framkvæmdir varðar, þ.e. að leitast við að gera einstakar framkvæmdir ódýrari, eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni, t.d. með því að einfalda gerð undirganga sem fara undir þá vegi sem fyrir eru. Ég held að þar sé miklum verðmætum sóað, frú forseti, þar sem unnt er að gera slíkt með forsteyptum einingum — hér vísa ég í samtöl við þá sem gerst þekkja — sem eru bæði ódýrari og einnig taka slíkar framkvæmdir miklu styttri tíma, eru til hægðarauka fyrir vegfarendur og minnka slysahættu meðan á framkvæmdum stendur. Við verðum að fara að hætta að finna upp hjólið. Hönnun, teikning, gröftur, uppsláttur jafnvel í þrígang og jafnoft er beðið eftir að steypan þorni — þetta er eitthvað sem er bæði dýrt og tímafrekt og á að heyra fortíðinni til. Sama mætti einnig segja um aðferðir við að byggja einfaldar brýr. Það má gera á einfaldari hátt en við gerum núna. Allt þetta hefur verið hannað margsinnis áður. Öll þessi þrautaganga er að mínu mati algerlega óþörf. Ég veit satt að segja ekki hverjum þetta þjónar, a.m.k. ekki skattgreiðendum.

Frú forseti. Í þessari ræðu ætla ég að tína til nokkrar einstakar framkvæmdir sem eru mörgum hugleiknar. Ég veit að verkefnin eru sannarlega mörg í vegagerð og skil hæstv. ráðherra mætavel. Honum er mikill vandi á höndum að forgangsraða og ekki er hægt að gera allt samtímis, ég átta mig alveg á því. En það má kannski reyna að hugsa hlutina svolítið upp á nýtt eins og ég var að nefna varðandi aðferðina og ýmislegt annað sem ég gæti nefnt. Ég nefndi fyrr í dag Sundabrautina sem hvergi sést í þessari áætlun og endurtekin vonbrigði mín með uppgjöf stjórnvalda í því. Ég ætla að nefna Reykjanesbraut frá Hafnarfirði og suður á flugstöð. Þeir vegarkaflar sem þar á helst eftir að ljúka á að ljúka á árunum 2024–2029, sem er að mínu mati mjög seint miðað við umferðarþungann á þessum vegi. Þarna er um að ræða kaflana frá flugstöð og einnig kaflann við Straum. Báðir þessir kaflar eru settar í þennan tímaramma, þ.e. á 2. tímabili áætlunarinnar. Varðandi Suðurlandsveg á Selfoss verður samkvæmt þessari áætlun austurkafla þess vegar lokið 2029, eftir tíu ár, en nú er verið að leggja lokahönd á 3 km kafla austan við Hveragerði en kafli neðan Hveragerðis er settur á árin 2004–2029. Allur þessi vegarkafli, alla leið á Selfoss, er brýn samgöngubót, ekki hvað síst þegar horft er til öryggissjónarmiða. Vesturhluti þessa sama vegar austur á Selfoss, þ.e. nær höfuðborginni, héðan frá Rauðavatni og að Lögbergsbrekku, virðist samkvæmt áætluninni, a.m.k. lokakafli framkvæmdar við þann vegarkafla, vera á dagskrá á tímabilinu 2024–2029. Ég verð að segja að mér finnst þetta vera ansi seint. Þetta eru vegir með eina akrein í hvora átt alveg í bakgarði höfuðborgarinnar þar sem mesti umferðarþunginn er og hann eykst ár frá ári.

Brúin yfir Ölfusá, sú bráðnauðsynlega framkvæmd — núverandi brú er mikill farartálmi, þó að ekki sé litið nema til þeirra viðbragðsaðila sem þurfa að komast leiðar sinnar. Sú framkvæmd er í áætluninni og hugmyndir um að fjármagna kostnaðinn, þ.e. 6 milljarða, í samstarfi við einkaaðila og þá er ætlunin að fjármagna verkið með veggjöldum, líklega, en ekki er gert ráð fyrir fjármagni í þetta verkefni til ársins 2024, nema þá í forhönnun. Varðandi brúna yfir Jökulsá á Sólheimasandi, sem er fyrsta einbreiða brúin á þjóðvegi eitt frá höfuðborginni austur um: Hún er á áætlun 2020–2024, 550 milljónir, og er það vel og löngu kominn tími til miðað við þann umferðarþunga sem er á þessum slóðum og hefur verið að aukast mjög hratt. Brúin yfir Hornafjarðarfljót — þar er einnig gert ráð fyrir að ganga til samstarfs við einkaaðila um fjármögnun, sem er annað nafn yfir veggjöld, og er gert ráð fyrir tæpum 2,5 milljörðum í verkefnið á næstu fjórum árum, sem er þá líklega helmingurinn af kostnaðinum. Ég vil taka undir með hæstv. ráðherra að þetta sé mjög brýn framkvæmd og stytti leiðina austur til Hornafjarðar og hún losar einnig út nokkrar einbreiðar brýr sem eru nú á þessum vegarkafla. Ég tek undir með hæstv. samgönguráðherra um styttingu vegarins við Morsá og Kotá en mér sýnist ansi langt í að það gerist.

Hugsunin varðandi láglendisveginn í Mýrdal og göng undir Reynisfjall er að vinna þá framkvæmd í samstarfi við einkaaðila, þ.e. að fjármagna þá framkvæmd með veggjöldum upp á 6,5–8 milljarða í samstarfi við einkaaðila. Alla vega er ekki gert ráð fyrir fjármagni í þetta verkefni á næstu 15 árum nema þá í frumathugun verkefnisins.

Ég ætla einnig aðeins að nefna Vatnsnesveginn sem er löngu orðin víðfrægur fyrir að líta fremur út eins og þvottabretti en vegur og er því miður ekki á dagskrá fyrr en á síðasta tímabili áætlunar, 2030–2034.

Loks ætla ég að nefna Landeyjahöfn. Varð þar vel að vonum. Í gær eða fyrradag var samþykkt þingsályktun um að framkvæma óháða úttekt á þessari höfn og ég er ansi ánægður með það og vil lýsa því yfir að ég á von á að sú úttekt taki skamman tíma og niðurstöðurnar komi fljótt. Ef niðurstaðan verður sú að gera þurfi einhverjar endurbætur á höfninni þarf að ganga í það sem fyrst. Það er búið að leggja í þessa framkvæmd mikið fjármagn og ef hún virkar ekki þarf að ganga í að laga hana. Það getur verið minni kostnaður við það að laga hana en að dýpka hana stanslaust eins og gert hefur verið síðustu ár. Ég vil því brýna hæstv. ráðherra í þessum efnum, sem er kannski alger óþarfi.