150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034.

435. mál
[21:31]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega andsvarið. Ég hef ekki svarið heldur en þessu er bara fróðlegt að velta upp. Við vitum náttúrlega að við búum oft og tíðum við sérstakar aðstæður. Það er bæði virknin hér hjá okkur, við viljum jú að byggingarnar standi, og það eru veðraskil sem við búum við. Svo erum við jú þjóð sem vill vinna hlutina vel og ég held að það sé engin ástæða — og ég hef ekkert slíkt í höndunum — til að vera að draga einhverjar ályktanir af þessu. En mér þykir þetta fróðlegt. Það er eins og ekki sé lagt af stað í nein verkefni án þess að hundruð milljóna kostnaður komi nánast strax. Þetta er bara mjög áhugavert og í ljósi þeirrar yfirferðar sem hæstv. samgönguráðherra hefur haft um þau brýnu verkefni sem eru fram undan — og nú er styttist í að málinu sé vísað í umhverfis- og samgöngunefnd þar sem ég og hv. þingmaður eigum bæði sæti — er alla vega að mínu viti einnar messu virði að taka umræðu um þetta, hvort sem það er með því að fá til okkar aðila sem þekkja til eða hvað það er. En þetta er alla vega áhugavert innlegg þegar svona miklar og brýnar framkvæmdir eru fram undan. Eins og fram hefur komið hjá hæstv. ráðherra verður áskorun að fjármagna þetta. Það þarf alla vega að halda vel utan um þessa hluti og ég fagna því að hv. þingmaður hafi vakið máls á þessu hér. Ég hef í sjálfu sér ekki neina aðra frekari fyrirspurn. Mig langaði bara til að vekja athygli á þessu og taka undir.