150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

leigubifreiðaakstur.

421. mál
[22:37]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég veit að við erum ekki alveg sammála um þessi mál en það er ekki það sem ég ætlaði að ræða. Ég tek undir með hv. þingmanni um að málið muni hafa sinn gang og ég efast ekki um að bæði sjónarmiðin fái að heyrast á fundum nefndarinnar og meðal þeirra gesta sem nefndin boðar á sinn fund.

Mig langar aðeins að eiga orðastað við hv. þingmann út af dæminu sem hann tók um Uber í London vegna þess að þetta eru fréttir sem rötuðu hingað heim. Miðað við fréttaflutninginn sem ég sá var þarna einfaldlega á ferðinni fyrirtæki sem braut lög og reglur og missti þess vegna leyfið. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður viti eitthvað meira um það eða hvort hann telji ástæðu til að óttast að slíkt gerðist hér. Það er í mínum huga svolítið eins og ef við hættum að veiða fisk af því að ákveðið flaggskip fyrirtækja hefði brugðist trausti okkar. Við höldum fiskveiðunum hins vegar áfram en reynum að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur.

Ég veit ekki hvort dómur er fallinn í London en telur hv. þingmaður að sá dómur, ef hann er fallinn, eða sú ákvörðun yfirvalda í London að banna Uber tengist frekar deilihagkerfinu sem þetta fyrirtæki keyrir eftir en bara því að menn brutu þarna lög og reglur og tóku afleiðingunum?