151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[11:30]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég sagði í framsögu í gær að við í meiri hlutanum hefðum kallað breytingartillögu okkar til baka. Hér varð ágæt umræða. Hér voru hreinskiptin skoðanaskipti en kannski svolítið gamlar þekktar ræður en út úr þeirri umræðu fannst mér samt koma tvennt, einnig í öllum umsögnum sem sendar voru inn um málið; eindreginn vilji til að standa vörð um íslenskan landbúnað og vilji hér inni á þingi að gera betur. Það er dýrmætt. Þess vegna hef ég lagt til við hv. atvinnuveganefnd og formann nefndarinnar að við köllum nefndina nú saman á milli umræðna vegna þess að fram kom í umræðunni, og hefur komið fram í umræðum um þessa atkvæðagreiðslu, að vandinn var annar og meiri en vegna Covid. Við ræðum þá við hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. landbúnaðarráðherra til hvaða frekari aðgerða er mögulegt að grípa. En ég segi að lokum: Ég held að það sé líka mikilvægt að við áttum okkur á því (Forseti hringir.) að virða hin huglægu tímamörk Covid-aðgerða í þessari aðgerð eins og öðrum.