151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[12:31]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil taka aðeins öðruvísi nálgun á opinber fjármál heldur en aðrir flokkar. Við viljum sjá árangur af notkun þeirra fjárheimilda sem við tölum hér um, ekki endilega hversu gríðarlega háar fjárhæðir eru að fara hingað og þangað, heldur hver árangurinn er í alvörunni af þeim þannig að við getum gert mikið fyrir lítið. Með því hugarfari vil ég einmitt frekar spyrja: Hvernig er meiri hlutinn, ríkisstjórnin, að útskýra fyrir okkur að fjárheimildum sé vel varið til þeirra verka sem hér um fjallar, t.d. loftslagsmála? Þó að ég sjái miklar fjárhæðir koma inn í málaflokkinn sé ég ekki árangurinn af notkun þeirra fjármuna. Það vantar útskýringu á því í hvað þessir peningar fara og hver áhrifin af því eru. Og eins og ég hef alltaf sagt hérna: Það vantar kostnaðarmat, það vantar ábatagreiningu þar sem segir hver áhrifin af notkun fjármunanna eru. Það er vandamálið þegar allt kemur til alls, ekki það að bara 1% í viðbót eða eitthvað svoleiðis fari í þennan málaflokk, heldur hvaða áhrif við sjáum af því og hvaða niðurstöðu við fáum og hvaða vandamál við leysum með þessu. Það eru stjórnmál Pírata.

Ég hef áhyggjur af því, eins og kom fram í máli hv. þm. Birgis Þórarinssonar, að við sjáum hér tilkynningar um sóttvarnaaðgerðir fram mitt ár, hið minnsta. Það eru 10% af tíma þessarar fjármálaáætlunar. En það er ekkert talað í rauninni um þau áhrif sem við sjáum fram á í þessari fjármálaáætlun hvað það varðar, ekki neitt. (Forseti hringir.) Það er ekki gerð tilraun til að fara (Forseti hringir.) með einhverja sviðsmynd um hvernig við komumst (Forseti hringir.) út úr kófinu heldur bara að við ætlum að redda þessu eftir því sem á líður.

(Forseti (GBr): Enn áréttar forseti það að hv. þingmenn virði tímamörk.)