151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[14:36]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er gott. Við erum alla vega að tala um sömu tölurnar núna og við erum að tala um sömu töflu. Ég var kannski að vonast til að þessar aðgerðir í umhverfis- og nýsköpunarmálum væru ekki einskiptisaðgerðir. Sumt þarna er það. Það sem ég er að kalla eftir er að settir séu myndarlegir fjármunir í þessa tvo málaflokka. Ég held að breytingin á næstu fimm árum sé ekki í samræmi við þá tilfinningu sem ríkisstjórnin er að skapa, þegar nýsköpunarmálin fá 30% lækkun milli upphafsárs og lokaárs og hækkunin til umhverfismála er afskaplega lítil milli ára. Það getur vel verið að hv. þingmanni og flokki hans finnist nóg gert í umhverfismálum og nýsköpunarmálum. Mér finnst það ekki. Okkur er bent á að hér sé hægt að gera meira. Þessir tveir málaflokkar eru svolítið sérstakir og þeir eru ekkert sérstaklega stórir til að byrja með. Hvor málaflokkur er um 1% af landsframleiðslu og 3% af fjárlögunum hvor. Við þurfum því kannski að vera bara myndarlegri hvað þetta varðar, ekki síst á tímum Covid, ekki síst á tímum loftslagsbreytinga. Við sjáum að umhverfismálin eru á blússandi ferð. Við erum að fjárfesta í grænum atvinnuvegum og höfum alls konar fjárhagslegan hvata til að innleiða græna atvinnustarfsemi. Það þarf bara að sjást betur í þessari fjármálaáætlun.

Nú er ég að reyna að vera ofsalega mildur af því að ég veit að hv. þingmaður getur ekki svarað mér aftur. Þessi tafla sýnir samt bara þróunina og ég vil þá lýsa áhyggjum af þróuninni. Ég held að við hv. þingmaður og Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin getum snúið bökum saman í næstu ríkisstjórn í því að gera enn betur í þessum lykilmálaflokkum þannig að græni litur Framsóknarflokksins verði enn betur dreginn fram í næstu ríkisstjórn. Ég veit að hv. þingmanni er annt um báða þessa málaflokka og verði hann fjármálaráðherra næst þá veit ég að hann mun gera talsvert betur en núverandi fjármálaráðherra.