151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það var áhugavert að hlusta á þessi andsvör. Það var lítið að frétta í ræðunni hjá hv. þingmanni að mér fannst en nú er ég dómharður maður. Ég var nefnilega engu nær um pólitík Pírata nema það sem kom fram í andsvari um að þeir sem kysu Pírata væru að kjósa formalista ríkisendurskoðanda jafnvel og einhverja gæslumenn reglna um tiltekið form. Af því að hv. þingmaður er vinnusamur nefndarmaður fjárlaganefndar og glöggur þar á verkefni nefndarinnar langar mig til að spyrja hann með beinum hætti um meginviðmið fjármálaáætlunar, sem eru tölusett frá einum og upp í fimm, og hvort hann myndi ekki bara vilja tjá sig aðeins um þau; svigrúm í krafti árangurs í ríkisfjármálum, áhersla á nýsköpun og innviðauppbyggingu, byrðum létt af fólki og fyrirtækjum, arðsemi og atvinnusköpun í fyrirrúmi við fjárfestingar, skuldasöfnun stöðvuð á áætlunartímabilinu, þó að hann tæki bara eina af yfirskriftum þessara punkta og myndi tjá sig um áherslur sem lagðar eru í fjármálaáætluninni út frá þeirri pólitík sem ég hélt að hv. þingmaður stæði fyrir, herra forseti.