151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:03]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágætisandsvar. Ég tek alveg undir með hv. þingmanni hvað það varðar að þarna inni eru náttúrlega mikilvægir þættir sem verða ekki teknir úr áætluninni. En ég var frekar að höfða til utanaðkomandi aðstæðna, t.d. bara þessara nýju frétta sem við vorum að fá í dag, eins og ég rakti í ræðu minni, að við séum ekki að fá það magn af bóluefni sem við gerðum ráð fyrir og þess vegna muni bólusetning dragast á langinn. Það er náttúrlega alvarlegur hlutur vegna þess að það getur haft veruleg áhrif á viðspyrnuna. Flestar af þeim aðgerðum sem hefur verið ráðist í sem eru kostnaðarsamar fyrir ríkissjóð snúa að því að hér verði öflug viðspyrna og það er horft til þess í hagvaxtarspám að það verði góður hagvöxtur á næsta ári. Ég held að nú sé bara orðin enn meiri óvissa um að það raungerist. Þá hlýtur það náttúrlega hafa áhrif á þessa áætlun, skuldsetningu ríkissjóðs. Ef ríkissjóður þarf að halda áfram að bæta í aðgerðir og annað slíkt og atvinnuleysi verður áfram mikið og við náum því ekki niður eins og við gerum ráð fyrir segir það sig sjálft að áform um að skuldahækkun verði ekki eftir 2025 eru í hættu. Þá er þessi áætlun náttúrlega orðin úrelt. Það er bara einu sinni þannig. Þó svo að við höfum þarna, eins og í stefnunni, ákveðið óvissusvigrúm sem við getum nýtt okkur erum við enn þá, því miður, stödd í heilmikilli óvissu. Það snertir alla þessa vinnu, það snertir fjármálaáætlun, það snertir fjárlögin og það sem við erum að reyna að setja saman á síðustu metrunum hér á Alþingi.