151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

336. mál
[20:52]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um mikilvægt mál fyrir íbúa landsbyggðarinnar vítt og breitt sem búið hafa við ofurverðlagt rafmagn svo að munar um upp undir 60% víða, þegar litið er til þess sem algengt er. Sú leið sem hér er enn einu sinni valin er stagbætt leið sem er löngu úr sér gengin og kemur fljótt í bakið á þeim sem í hlut eiga. Landsnet hefur sem dæmi óskað eftir gjaldskrárhækkun strax um áramót, en það getur ráðherra stoppað. Þá er rétt að halda því til haga að hér er alls ekki um fulla jöfnun að ræða. Það er algerlega óviðunandi að henni skuli ekki verða náð fyrr en í fyrsta lagi 2025. Varanleg réttarbót er sú að koma á einni gjaldskrá fyrir raforku um allt land. Það er hægt, það er réttlætismál og það er varanlegt fyrirkomulag. Að því viljum við að farið sé að vinna þegar í stað.