152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

blóðmerahald.

[16:15]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég vil í seinni ræðu minni í þessari umræðu koma inn á það sem er svo mikilvægt í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur, en það er að læra af því sem aflaga fer á fyrri stigum. Við sjáum t.d. þá þróun sem hefur orðið í tengslum við varphænur þar sem nú er að verða skylda að þær séu í lausagönguumhverfi í stað þess að vera í búrum. Ég held að því hafi verið frestað um 12 mánuði þannig að það verði næstu áramót. Það eru ekki allir sammála um að það sé endilega það besta fyrir varphænurnar en það er nú engu að síður þróunin; nálgunin í þeim efnum er kennd við Astrid Lindgren, ef ég man rétt. Aðstæður svína hafa batnað stórlega á undanförnum árum og áratugum í ljósi þróunar sem hefur orðið. Rými og annað er með allt öðrum hætti en áður var. Þetta er auðvitað hlutur sem er mjög líklegt að þurfi að eiga sér stað, a.m.k. að hluta til, hjá þeim bændum sem stunda blóðmerahald. En við megum að mínu mati ekki nálgast málið með þeim hætti að það verði að slá starfsemina af að fullu til að laga þær misfellur sem verða.

Eins og komið hefur fram í umræðunni ver enginn það sem kom fram í þessu umtalaða myndbandi, en það breytir því ekki að við eigum að nota slíkt til að læra af því. Grein dýralæknisins sem ég nefndi hér í fyrri ræðu minni kemur sérstaklega inn á magn blóðtöku. Þetta eru auðvitað hlutir sem hljóta að verða skoðaðir í þeirri nefndarvinnu sem verið er að fara í gegnum núna og af því eigum við að læra. Þetta er það sem ég vildi segja hér í seinni atrennu.