152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

Sundabraut.

45. mál
[18:14]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa umræðu sem er um margt áhugaverð og ætti svo sem ekki að koma honum á óvart að við sem búum í Reykjavík og erum þingmenn Reykjavíkurkjördæmanna höfum mikinn áhuga á þessu máli. Hv. þingmaður segir að Sundabrautin sé ekki einkamál Reykjavíkurborgar en ber að skilja orð hv. þingmanns þannig að hann sé frekar hlynntur Sundabraut eða -brú en Sundagöngum? Í því samhengi nefndi hann að af því að þetta væri ekki einkamál Reykjavíkurborgar, og það væri meiri kostnaður við gerð ganga en brúar eða brautar, þá bæri borginni, velji hún með sitt skipulagsvald að fara í göng, að greiða það sem á milli bæri, einhverja tugi milljarða, ef ég skildi hann rétt. Hvernig fer það saman? Mig langar að spyrja hv. þingmann: Ef þetta er ekki einkamál Reykjavíkurborgar, af hverju á hún að bera allan þungann af auknum kostnaði við göng en ekki brú?