152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

Sundabraut.

45. mál
[18:19]
Horfa

Flm. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar. Að sjálfsögðu vildi ég brú eins og stendur í tillögunni. Varðandi kostnaðinn þá get ég tekið dæmi með Teigsskóg, það voru hugmyndir um að gera jarðgöng þar. Það hefði verið mjög góð framkvæmd að gera jarðgöng yfir í Gufufjörð og Djúpafjörð og áfram. En leið um Teigsskóg var valin út af kostnaðinum. Það lá alltaf fyrir að Teigsskógur yrði valinn út af kostnaði. Það er sama hér. Ég tel að það verði alltaf brú. Það er ekki forsvaranlegt að fara í göng út af kostnaði. Varðandi umhverfisáhrifin þá erum við hérna í þéttbýli og brú er mannvirki sem er sýnilegt. Ég held að brú gæti bara orðið eitt af svokölluðum landmörkum í Reykjavík, gæti verið borgarprýði. Ég veit að það geta orðið deilur í Grafarvogi út af þessu, íbúasamtök þar og víðar kannski. Það hafa verið miklar deilur í Grafarvogi t.d. út af Hallsvegi, sú vegaframkvæmd tafðist árum saman út af deilum. Ég tel bara mjög mikilvægt að fara í þessa umræðu um það hvort það eigi að vera brú eða göng, ekki að segja: Það eru allir sammála um Sundabraut, sammála um yfirlýsingu frá borgarstjóra og fleiri aðilum, stjórnvöldum, um að byrja endilega á brautinni. En spurningin er alltaf þessi, erfiða spurningin: Hvort eiga það að vera jarðgöng eða brú? Hvort á það að vera Sundagöng eða Sundabrú? Ég bara veit að á endanum verður byggð brú, Sundabrú. Þessi umræða á að fara fram, um Sundabrú eða Sundagöng. Það er algerlega klárt í mínum huga að því seinna sem við tökum þessa umræðu, sem er mjög gott að taka núna, því meira mun það seinka framkvæmdunum. Það er ekki hægt að sópa þessu undir teppið og tala endalaust um hvað Sundabraut er æðisleg og að við spörum svo mikinn pening á henni þegar ekki er búið að ákveða hvernig þetta á að líta út. Ég tel að umhverfisáhrifin (Forseti hringir.) af þessu mannvirki muni ekki vera mikil þar sem þetta er í þéttbýli.