152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

Sundabraut.

45. mál
[18:21]
Horfa

Kolbrún Baldursdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni fyrir þessa ágætu þingsályktunartillögu. Málið er aldeilis mikilvægt í hugum okkar allra og sérstaklega er þessi umræða búin að vera afar löng og ströng og alls konar fyrir þau sem komin eru yfir miðjan aldur. En allt sem komið hefur fram hjá hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni er rétt, þ.e. að Sundabraut hefur verið metin sem einn besti kostur í samgöngum fyrr og síðar. Verkefnið er á ábyrgð Vegagerðarinnar og hlutverk Reykjavíkurborgar er fyrst og fremst að tefja ekki heldur flýta verkefninu og vanda sig í skipulagsmálum þannig að tekið verði tillit til nærliggjandi byggðar, svo sem hvaða breytingar verða á umferð um Vogahverfi og byggðir Grafarvogs.

Beðið var um þá félagshagfræðilegu greiningu sem nú liggur fyrir. Það er nú oft þannig þegar verið er að biðja um svona greiningar að maður verður smá áhyggjufullur því að maður hugsar: Hver er að biðja um greininguna og hver mun borga hana? Og sá sem borgar hana, hvað vill hann fá út úr henni? Þannig að það kemur oft þessi tilfinning að nú sé kannski aðeins verið að reyna að fá eitthvert ákveðið álit eða sjónarmið með því að biðja um greiningar. En það kemur reyndar fram að það er hagkvæmara að byggja brú en göng. Reyndar segir að það sé ekki verulegur fjárhagslegur munur á því en það er þó fjárhagslegur munur. Og svo má túlka kannski þessa félagshagfræðilegu greiningu á ýmsa kanta.

Brú hefur auðvitað þann augljósa kost að yfir hana er hægt að fara á hjóli og ganga, eins og fram hefur komið. Það er náttúrlega ekki hægt að líkja því saman útlitslega séð hvernig brú kemur út versus göng, bara að koma til borgarinnar og fara yfir glæsilega brú frekar en að aka ofan í göng. Brú verður auk þess hluti af umferðarkerfi innan borgarinnar. Auðvitað er ekki sama um hvernig brú verður að ræða. Hún þarf auðvitað að vera falleg og tilkomumikið mannvirki, sem verður þá eins konar inngangur að höfuðborginni, og gefur þessa jákvæðu upplifun þegar ekið er inn í borgina. Við þekkjum þetta öll bara frá því að vera í útlöndum, hversu glæsileg mannvirki geta verið og það er skemmtileg upplifun að aka yfir brú inn í borg.

Ég held að það sé svo sem engin deila um það núna að Sundabrú er hagkvæmari valkostur um göngin. En eins og þetta liggur fyrir núna þá virðist það nokkuð ljóst að ríkisvaldið er svolítið að tala meira um brú, en borgarstjórnarmeirihlutinn hefur verið að ræða um göng. Mér finnst það í rauninni ekki vera nein spurning lengur en ég veit ekki betur en að borgarstjóri og hans fólk í meiri hlutanum hafi einmitt setið í ýmsum spjallþáttum og talað fyrir göngum þannig að það er alveg ljóst hvaða óskir eru þar. Og svo er þetta spurningin um af hverju, hver er skýringin á að borgarstjórnarmeirihlutinn talar fyrir göngum? Ég hef eiginlega ekki almennilega fengið það fram neitt niðurnjörvað nema að það sé eitthvað í umhverfislegu tilliti skemmtilegra eða betra eða að það taki minna pláss. Það er óvissa um umhverfisáhrif ef um brú verður að ræða. Það er dálítið skondið að lesa skýringar stjórnarmeirihlutans í ýmsum skýrslum um þetta, því að eins og við vitum þá er eiginlega hvergi fjörur lengur að finna nú orðið í Reykjavík, það er búið að fylla þær allar. Þannig að síðan þegar kemur að þessari umræðu er allt í einu mikill áhugi á að vernda lífríkið og umhverfið. Það er nú bara hvernig hlutirnir eru hverju sinni.

Ég tek undir það sem fram hefur komið hjá hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni að lagning Sundabrautar, og við förum vonandi bráðum að tala um Sundabrú, hefur tafist allt of lengi, m.a. vegna skipulagsmála. Þetta verkefni hefur ekki verið fjármagnað og það er auðvitað verkefni ríkisins og Vegagerðarinnar að leggja þær línur.

Ef við horfum bara til samfélagslegs hagnaðar sem mun koma til með þessu verkefni þá er þetta náttúrlega alveg ótrúlegur hagnaður. Við erum að tala um akstur og tímasparnað, þessi hagnaður mun dreifast á mjög marga. Við erum auðvitað að tala um þá sem aka á milli Vesturlands og Reykjavíkur, þeir munu hafa gríðarlegan hag af þessu samgöngumannvirki.

Þessi umræða hefur aldrei verið eins nærri okkur og akkúrat núna og maður spyr sig: Er þetta að verða að veruleika? Erum við að leggja af stað í þetta ferðalag? Ég tek undir það sem fram hefur komið að mér heyrist tónninn vera að við séum að fara í brúna. Ef ríkisvaldið vill það frekar er það sterkt og ef rök borgarmeirihlutans eru veik þá eru það enn fleiri atkvæði fyrir brúna.

Það er komið að því að taka ákvörðun. Við getum ekki endalaust verið að þvælast með þetta mál. Maður spyr sig hreinlega hvort maður muni lifa það að sjá þetta mannvirki verða til. Vonandi verður það svo. Umferðin er sífellt að aukast. Borgin er að stækka. Við erum klárlega að horfa upp á fólksfjölgun og það er enginn að mótmæla því, það verður gríðarleg fólksfjölgun og sennilega meiri en búið er að spá. Og hver könnunin á fætur annarri hefur sýnt að bílum er að fjölga, hvað sem verið er að gera til að reyna að sporna við því. Auðvitað erum við öll að hugsa um loftslagsmálin og allt hvað eina og það er bara dásamlegt að æ fleiri eru farnir að hjóla og svo koma nú kannski betri almenningssamgöngur. En engu að síður er bílum að fjölga. Ég vil því bara þakka fyrir þessa tillögu enn og aftur og vonandi verða frjóar og skemmtilegar umræður í framhaldinu. Síðan er ég farin að hlakka til að sjá glæsilega brú rísa þarna yfir.