152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

Sundabraut.

45. mál
[18:50]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræður hans um Sundabraut, Sundabrú, Sundagöng. Það er alltaf spurning hvernig þetta endar. En þar sem ég veit að hv. þingmaður hefur dálitla reynslu af þessu þá langaði mig að spyrja hann út í það hvað annað en pólitískur vilji hafi verið að tefja þetta mál í 20 ár eða svo. Eru það umhverfisáhrifin? Er það fjármögnunin eða er það bara það að þegar ríkisstjórnin vill gera eitthvað þá vill borgin ekki gera það og öfugt? Hvað er það helsta sem hefur orsakað það að þetta hefur tafist? Segjum sem svo að á morgun, í óundirbúnum fyrirspurnatíma, nái hv. þingmaður að spyrja innviðaráðherra hvort hann sé ekki til í þetta og ráðherrann segi jú og svo hringir hæstv. borgarstjóri og segir bara: Heyrðu, byrjum. Hvað tekur þetta þá langan tíma, hvað getum við reiknað með að þetta taki langan tíma frá því að allt þetta ferli er búið og þangað til að við fáum loksins að keyra þarna yfir?