152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

Sundabraut.

45. mál
[18:52]
Horfa

Flm. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hvað tekur þetta langan tíma? Samkvæmt yfirlýsingu innviðaráðherra og borgarstjóra, sem ég vitnaði til hér áðan, gera þeir ráð fyrir að framkvæmdir hefjist 2026 og verði lokið 2031. Í dag eru fjögur ár í 2026 og ekki er enn búið að ákveða hvort það verður Sundabrú eða Sundagöng. Það er alltaf bara talað um Sundabraut, allir voða spenntir fyrir Sundabraut, þeir vita ekki hvað það verður, svo að það liggi fyrir. Áætlaður tími framkvæmda er um fimm ár en það er undirbúningstíminn sem er svo mikilvægur. Þess vegna er svo mikilvægt að byrja sem allra fyrst og ákveða þetta. Við ætlum að byggja Sundabrú. Þá er mikilvægt að hönnunarferlið fari sem fyrst fram og í tillögu og yfirlýsingu ráðherra og borgarstjóra er t.d. talað um að fara í hönnunarsamkeppni. Þetta á að vera mikilvægt mannvirki í borgarlandslaginu, það er ekki farið í alþjóðlega samkeppni út af engu.

Varðandi tafirnar, við erum búin að tala um þetta í svo mörg ár, þá tel ég að þetta sé klassískt dæmi um samspil Reykjavíkurborgar og ríkisvaldsins. Reykjavíkurborg hefur lýst yfir að hún vilji göng, gerði það árið 2008, og það mun sennilega ekki verða. Þess vegna hefur þetta tafist, út af kostnaði. Ríkisvaldið hefur ekki verið tilbúið að fara í þennan slag og segja: Við viljum Sundabrú. Það er vilji Alþingis og það er vilji ríkisins að fá Sundabrú. Þá verður borgin að segja: Já, við erum sammála, eða hún verður að halda áfram að heimta Sundagöng. Það eru þessar deilur um hvort það eigi að vera brú eða göng sem hafa tafið málið og þessi samskipti ríkisvalds og borgaryfirvalda. En nú er komið að ákvarðanatökunni, að Alþingi Íslendinga taki þessa ákvörðun með þingsályktun (Forseti hringir.) um að það verði Sundabrú og eftir því verði farið.