152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

kaup á nýrri Breiðafjarðarferju.

46. mál
[19:10]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni fyrir góðar framsögu. Ég verð að viðurkenna að það er orðið ansi langt síðan ég fór um borð í Baldur og ég veit ekki einu sinni hvort það var gamli Baldur eða núverandi Baldur. En mig langar fyrst að spyrja hv. þingmann: Ef fjárfest væri í öflugri ferju, mun öflugri ferju er þarna núna, hvaða tækifæri önnur en ferðamennsku gæti það skapað varðandi nýsköpun og atvinnuþróun á þessu svæði? Þá er ég líka að hugsa um hvort hægt sé að sigla henni á fleiri staði á Breiðafirði og skapa þar með fleiri tækifæri, t.d. að flytja einhvern varning eins og fisk og annað sem í dag er flutt eftir vegakerfinu sem er nú líka í miklu lamasessi þarna á svæðinu, ég held að þingmenn þingmenn kjördæmisins séu sammála mér í því að það þurfi líka að gera mikið fyrir vegakerfið þarna. En sem sagt: Hvaða tækifæri gætum við farið að hugsa um ef við hugsuðum svolítið stærra og hugsuðum svolítið vel út í þetta? Það væri gaman að heyra hjá hv. þingmanni hvað hann sér í því efni.