152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

kaup á nýrri Breiðafjarðarferju.

46. mál
[19:14]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni, þetta er mjög mikilvægt fyrir samgöngur á þessu svæði. Það er mjög mikilvægt að við séum að tala þarna um nútímaferju. Eitt af því sem hv. þingmaður nefnir í þingsályktunartillögunni er að ferjan verði knúin af endurnýjanlegum orkugjöfum og væntanlega getur það þýtt rafmagn. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Ef þessi endurnýjanlegi orkugjafi er rafmagn, hvernig er ástandið á rafmagnskerfinu á þessu svæði til að geta veitt rafmagn þarna? Þarna horfi ég t.d. á nýleg samskipti á Seyðisfirði þar sem vantar rafmagn til að hægt sé að láta Norrænu t.d. keyra bara á vélunum sem hún þarf í höfn.