154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

móttaka flóttafólks frá Palestínu.

[15:36]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Þessi yfirlýsing hefur í raun og veru mótað framgöngu íslenskra stjórnvalda frá því að hún var samþykkt. Það fyrsta sem gert var var að upplýsa bæði sendiherra Ísraels og sendiherra Palestínu um ályktun Alþingis. Í hana hefur verið vitnað síðan á alþjóðavettvangi. 10. nóvember var atkvæðagreiðsla í UNESCO þar sem var samþykkt ályktun um neyðaraðstoð til Gaza og einmitt vísað í þessa afstöðu sem birtist í ályktun Alþingis. Það var flutt yfirlýsing á fundi mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna o.s.frv. Það væri eiginlega of langt mál að telja upp alla þá vettvanga þar sem hefur verið vísað í þessa ályktun. Hún hefur líka haft þau áhrif, sem ég vitnaði til áðan, að framlög Íslands til mannúðaraðstoðar hafa verið aukin eins og kveðið var á um. Ég nefndi viðbótarframlag til alþjóðlega stríðsglæpadómstólsins, enda er sérstaklega fjallað um það (Forseti hringir.) að mikilvægt sé að slík rannsókn fari fram á framgöngu ísraelskra stjórnvalda. Þannig að ég hygg nú (Forseti hringir.) að þegar þessi saga er skoðuð þá komi það fram að þessi ályktun hefur mótað allt sem íslensk stjórnvöld hafa gert frá samþykkt hennar.