154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

breyting á ýmsum lögum í þágu barna.

240. mál
[22:38]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ástæðan fyrir því að ég spyr líka er að það eru að bætast við nýjar málsgreinar í lögin, t.d., með leyfi forseta:

„Sveitarfélög skulu tryggja að þjónusta leikskóla sé samfelld og samþætt í þágu velferðar og farsældar barna.“

Líka það sem kemur t.d. í 4. gr. laganna:

„Starfsfólki leikskóla ber að stuðla markvisst að velferð og farsæld barna.“

Það má vel vera að það sé einhver sparnaður í þessu þar sem verkefnin færast inn í leikskólann frá einhverjum öðrum stað og það fjármagn færist með en það er þá væntanlega kostnaðarauki fyrir sveitarfélögin ef það færist annars staðar frá, mögulega frá t.d. ríkinu. Það er kannski ógreinilegt hvaðan þjónustan og samþættingin er að færast en það er alla vega tvímælalaust aukinn kostnaður varðandi leikskólaþjónustu sveitarfélaga með þessum greinum, myndi maður áætla, tengt öllu öðru sem er í lögunum varðandi ábyrgð.

Mér finnst alveg áhugavert að það hafi ekki verið pælt í kostnaðarmatinu samhliða þessu, sérstaklega eftir fyrri umferðina og gagnrýnina sem kom á farsældarlögin með tilliti til fjármögnunar. Við höfum ekki séð fulla innleiðingu enn þá en að gefinni reynslu, t.d. í málefnum fatlaðra þar sem kostnaðurinn var gríðarlega vanáætlaður, þá hefur maður alveg heyrt tölur sem bæta við nokkrum milljörðum ef í raun og veru á að ná að framkvæma lögin. Það er náttúrlega ekki nóg að skrifa lög og búa til réttindin. Ef það er síðan ekki verið að fjármagna það að geta sinnt þeirri þjónustu og þeim réttindum þá erum við í rauninni að gefa fólki falska von um að hlutirnir verði betri.