135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[11:26]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef enga skoðun á því hvaða skoðun hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur alla jafna. Hann getur bara haft þá skoðun sem hann vill. En ég frábið mér þau vinnubrögð að hann segi að sá sem hér stendur hafi sagt eitthvað og gefið einhverjar línur hér og þar, eins og hann nefndi, að einkavæða allt sem hægt væri að einkavæða og eitthvað slíkt, og ætlast svo til að maður standi hér og þræti fyrir það eða staðfesti það, eitthvað sem hv. þingmaður telur að sá sem hér stendur hafi sagt.

Þetta er ekki hv. þingmanni til sóma, og ekki þinginu. Það segir sig sjálft, ef við snerum þessu við og ég segði að hv. þm. Ögmundur Jónasson hefði bara sagt að það ætti að ríkisvæða allt sem hægt væri að ríkisvæða, hann væri bara búinn að gefa þá línu, það ætti að taka Grund og ríkisvæða hana, Hrafnistu líka, læknavaktina, ríkisvæða þetta allt, að það er ekki neinn sómi að þessu. Við skulum taka umræðuna, við skulum fara málefnalega yfir málið en ekki bera upp einhverja hluti og ætla að fara að þræta út frá þeim forsendum. Það sér hv. þingmaður, virðulegi forseti.

Ég ætlast til þess að hv. þingmaður taki þessa umræðu með þeim hætti. Fínt, hv. þingmaður má gagnrýna þann sem hér stendur eins og hann vill en ekki bera upp á hann einhverjar sögur sem hann hefur engan fót fyrir.