139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

tekjuskattur.

300. mál
[18:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er dálítið erfitt að ræða við hæstv. umhverfisráðherra um skattamál vegna þess að hann hefur ekki samið frumvarpið. Ég vil þrátt fyrir það spyrja hann um 2. gr., það á sem sagt að taka þetta af. Fólk sem af frjálsum vilja kaupir tryggingu er búið að borga skatta af því iðgjaldi sem það greiðir og fær svo bætur, það á að skatta það. Þetta tel ég vera tvísköttun. Ef menn eru hins vegar skyldaðir til að greiða í einhvern sjóð, eins og í sjúkrasjóðina eða í lífeyrissjóðina, má líta á það sem ígildi skattlagningar eða oft á tíðum er það reyndar skattfrjálst. Þá finnst mér horfa öðruvísi við. Mér finnst að það vanti í þetta frumvarp einhverja heildarstefnu, einhverja rökhugsun. Mér finnst að það eigi þá annaðhvort að segja að þær tryggingar þar sem iðgjaldið er skattfrjálst, þar skuli borga skatta af bótunum en ella ekki. Það væri ein leið. Það er ekki gert hérna.

Það er fjöldinn allur af öðrum tryggingum sem menn taka sem eru nákvæmlega eins, t.d. bílatryggingar, heimilistryggingar o.s.frv. Hvað ætla menn að gera við það ef skattstjóra dettur allt í einu í hug að segja að þetta sé skattskylt?