143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:53]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel ákaflega mikilvægt að við höldum því til haga að þetta er vegna samnings sem sveitarfélagið gerði við Eftirlitsnefnd sveitarfélaga. Við getum því ekki sagt að vegna vanda með félagslegt húsnæði í öðrum sveitarfélögum geti þetta orðið fordæmisgefandi. Það er réttmæt ábending hjá þingmanninum er hún segir að það sé spurning hvort lægra sett stjórnvald geti skuldbundið með þessum hætti.

Það sem raunverulega fer úrskeiðis — eins og ég skil það, þannig er það lagt fyrir mig og ég efast ekkert um þá túlkun — er að menn hafa einfaldlega ekki vandað fráganginn, ekki gengið frá öllum lausum endum. Það er því ákaflega ósanngjarnt ef Bolungarvíkurkaupstaður á að gjalda fyrir það. Þegar sveitarfélagið nær að standa við allt sem það hefur lofað og skrifað undir er ósanngjarnt að hegna því fyrir að eftirlitsnefndin hafi ekki náð að klára það sín megin frá. Þannig blasir málið við. Ég held að það geti skipt miklu máli, fyrir trúverðugleika eftirlitsnefndarinnar og þau verkfæri sem hún þarf á að halda, til þess bæði að veita sveitarfélögum aðhald og vinna úr þeim vandræðum sem þau kunna að rata í, að þarna verði brestur á samningi.