148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

lögheimili og aðsetur.

345. mál
[14:30]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er áhugaverð spurning hvers vegna ríkisvaldið er að skrá lögheimili yfir höfuð. Það er hins vegar ekki spurningin sem ég bar fram. Ég spurði hvers vegna fólk mætti ekki dylja lögheimili sitt. Ég veit líka að ríkisvaldið leyfir almenningi góðfúslega að búa þar sem hann vill, svona almennt. Veitir góðfúslega þetta svakalega frelsi, eitthvað sem mér finnst ekki einu sinni til umræðu, nokkurn tíma, að ríkið hafi eitthvað um að segja. En það má svo sem segja um fleira eins og hin fráleitu lög um mannanöfn og fleira í þeim dúr.

En það er ekki það sem ég var að velta fyrir mér heldur hvers vegna fólk mætti ekki dylja lögheimili sitt af þeim ástæðum sem því sýndist. Ástæðan sem hæstv. ráðherra nefnir er alveg málefnaleg. Ég skil hana mætavel. En eins og kemur fram í greinargerð tekur þetta ákvæði ekki gildi fyrr en 2020. Nú þegar eru til tæknilegar lausnir sem gera fólki og stofnunum kleift að hafa samband við fólk. Ef ekki tölvupóstur eða hreinlega pósthólf þá einhvers konar innskráningarsíða á island.is þar sem borgarinn hefði lagalega skyldu til að fylgjast með og bæri ábyrgð á að hægt væri að ná í hann þar. Það eru tæknilegar lausnir á þessu vandamáli. Mér finnst þessi rök ekki alveg duga þó að mér (Forseti hringir.) þyki þau málefnaleg. Mér þykja þau ekki alveg duga með hliðsjón af því að tækniframfarir gera þetta alveg kleift, og vissulega árið 2020.