148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

lögheimili og aðsetur.

345. mál
[15:43]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Þegar ég vaknaði í morgun hefði ég ekki látið mér detta í hug að vera viðstaddur jafn efnismikla og áhugaverða umræðu um frumvarp til laga um lögheimili og aðsetur og raun ber vitni. Það er greinilegt að það er meira í þessu máli en maður heldur við fyrstu sýn.

Mig langar að koma aðeins inn á atriði sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kom inn á áðan. Það er spurningin sem við ættum kannski alltaf að spyrja okkur þegar við ræðum mál sem tengjast þjóðskrá og almannaskráningu yfirleitt: Hver er nauðsyn skráningarinnar? Án þess að hafa endilega einhverjar rannsóknir til að styðja fullyrðinguna ímynda ég mér að skráningargleði Íslendinga sé meiri en meðalþjóðar. Þetta þekkjum við sem erum nógu gömul til að hafa átt í viðskiptum við vídeóleigur. Ég held að fá lönd hefðu sætt sig við að enginn gæti tekið spólu án þess að nota til þess kennitöluna sína. Sambærileg gögn almennings í öðrum löndum eru gjarnan dýrmætur varningur sem fólk heldur ansi traustum tökum um. Eins held ég að sé full ástæða við tækifæri til að ræða hvort ríkið eigi að halda skrá yfir trúarskoðanir fólks eins og gert er hér á landi. Það er aftur eitthvað sem önnur lönd myndu hugsa sig tvisvar um í ljósi þeirrar reynslu sem þau hafa sum gengið í gegnum en þykir réttlætanlegt hér á landi til þess að ákveða úthlutun almannafjár til félaga sem fá sóknargjöld innheimt í gegnum ríkið.

Sama virðist vera upp á teningnum með nákvæma skráningu þess hvar fólk býr. Þetta er praktískt. Þetta hefur praktískan tilgang, þann tilgang að sveitarfélög geti skipulagt sig og hægt sé að veita þjónustu aðeins markvissar en áður. En þegar ég hlustaði á hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson fletti ég mér til gamans upp á lögum um heimilisfang, nr. 95/1936, og velti fyrir mér hvort þingmaðurinn hafi kannski verið að lýsa þeirri skoðun sinni að við ættum að hverfa dálítið aftur til þess einfaldari tíma þegar lög um heimilisfang endurspegluðu bara þörfina á því að sveitarfélög vissu hver byggi innan marka þeirra. Í 1. gr. þeirra laga var kveðið á um að hver sá sem dveldi hér á landi lengur en þrjá mánuði skyldi eiga heimilisfang á einum ákveðnum stað. Í 3. gr. segir síðan að hver sá sem skiptir um heimilisfang skuli tilkynna það þar til bærum yfirvöldum. Í þeirri grein segir jafnframt, með leyfi forseta:

„Nú skiptir maður um heimilisfang innan hrepps eða kaupstaðar og þarf þá ekki að senda tilkynningu þá er í þessari grein getur nema svo sé fyrir mælt sérstaklega.“

Þarna er sem sagt búið að viðurkenna þörfina á því að heimilisfang sé skráð á einhvern hátt til að sveitarfélög geti innheimt sitt útsvar en ef fólk flytur innan þeirra marka þannig að það hafi ekki áhrif á skiptingu útsvarsgreiðslna þurfi ekki að tilkynna það. Hvort við séum endilega komin á þann stað að breyta lögunum á þennan hátt til einföldunar í dag er ég ekki viss um en til lengri framtíðar gæti þetta verið eitthvað til að líta til.

En talandi um praktískan tilgang rak ég augun í það þegar lög um lögheimili voru samþykkt 1990 að þar þótti akkúrat mæla með lögunum að með þeim væri hægt að spara þá vinnu, tíma og fyrirhöfn sem fór í að taka ítarleg manntöl reglulega, eitthvað sem eftir á að hyggja hefði kannski ekki átt að leggjast af því að upplýsingarnar sem komu fram í manntölunum eru eitthvað sem er mikið gagn að. Þetta er sparnaður sem hefði alveg mátt sleppa.

Síðan ef við erum að tala um praktísk úrlausnarefni er náttúrlega tvöfalt lögheimili barna eitthvað sem margir þingmenn hafa komið hér inn á. Það hljótum við að þurfa að skoða, jafnvel í samvinnu umhverfis- og samgöngunefndar og allsherjar- og menntamálanefndar sem fer væntanlega með málefni barna í þessu samhengi.

Þá datt mér líka í hug þegar ég hlustaði á hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur hvort það sama sé upp á teningnum með dvalarleyfi útlendinga og maka þeirra. Þarna eru greinilega ýmis atriði sem þarf að velta upp. En dálítið í anda þess sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson nefndi áðan þá er nú eitt praktískt sem er hægt að nota lögheimili þingmanna í og það þekkja hagyrðingar. Það hittist svo vel á að inni á þingi eru sjö þingmenn í dag sem eiga lögheimili á stað sem ber sama upphafsstaf og þingmaðurinn. Þannig gætu skáldmæltir þingmenn t.d. gert sér leik að því að semja vísu um hæstv. ráðherra Sigurð Inga Jóhannsson, búsettan að Syðra-Langholti. Og reyndar er Framsóknarflokkurinn sérstaklega vel til þess fallinn að vera vísnaefni. Þingmennirnir Silja Dögg Gunnarsdóttir og Halla Signý Kristjánsdóttir eiga heima annars vegar í Seljudal og hins vegar Hlíðarstræti. Hvort þetta réttlæti það að við höldum nákvæma skrá um lögheimili þessa fólks skal ósagt látið.