148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

breyting á ýmsum lögum á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála.

389. mál
[16:22]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég held að svarið myndi bara akkúrat gleðja hv. þingmann, að frumvarp þetta snýst um það að ríkisvaldið, í þessu tilviki framkvæmdarvaldið, er að samþætta áætlunargerð sína, samþætta hana við lög um opinber fjármál þannig að við séum að leggja fram áætlanir til lengri tíma. Frumvarpið snýst fyrst og fremst um formgerð vinnunnar til að tryggja það að við séum með verkfærin út af fyrir sig og samræma þau við ólíka málaflokka sem heyra undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.

Í sjálfu sér erum við í þessu í vinnu við að búa til rétta formið fyrir okkur og við leggjum síðan fram áætlanir sem hafa þá verið unnar af viðkomandi ráðum, samgönguráði varðandi samgönguáætlun, fjarskiptaráði varðandi fjarskiptaáætlun, byggðamálaráði varðandi byggðaáætlun, til samræmds tíma, þ.e. 15 ára, en fimm ára aðgerðaáætlunartíma sem er þá það sama og við höfum þekkt í sambandi við samgönguáætlun sem hafa reyndar verið til fjögurra ára og 12 ára.

Hér er fyrst og fremst verið að formgera vinnuna. Frumvarpið snýst um það, ég hefði haldið að hv. þingmaður hefði einmitt áhuga á því að við værum að horfa til lengri tíma og tryggja það að verklag framkvæmdarvaldsins væri með skýrari hætti. Þetta hefur síðan ekkert með einstakar tillögur, hvorki í samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun né byggðaáætlun, að gera. Þær koma síðan eins og þær verða búnar til af viðkomandi ráði í samráði við alla þessa aðila sem viðkomandi ráðherrar vinna áður en þær verða lagðar fyrir þingið sem þingsályktunartillögur.