148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjarskipti.

390. mál
[17:06]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hérna frumvarp til laga um breytingu á ýmsum ákvæðum er varða fjarskipti og rétt eins og hv. ræðumenn sem hafa talað á undan segja hefur frumvarpið það yfirbragð að þetta sé mjög tæknilegt mál en það er í raun og veru afskaplega mikilvægt og merkilegt mál. Ég tek undir það.

Það eru nokkrir þættir þess sem ég vil sérstaklega gera að umtalsefni og kannski beina orðum mínum til nefndarinnar sem fær það hlutverk að fjalla nánar um málið. Hún getur þá haft punktana til hliðsjónar í sínum verkum, en almennt má segja um fjarskiptamál á Íslandi að þau hafa í grunninn byggst upp á því í heila öld að útbreiðsla þeirra hér á landi sé sem mest. Ef við skoðum söguna má raunverulega segja að í gegnum áratugina höfum við borið gæfu til þess að byggja fjarskiptin þannig upp að sem jafnast aðgengi sé fyrir alla borgarana. Það er mjög merkilegt.

Það er mjög merkilegt fyrir þessa fámennu þjóð í stóru landi að hafa staðið þannig að málum og við höfum gengið í gegnum margs konar byltingar í þeim efnum. Til dæmis má segja að við höfum símavætt Ísland a.m.k. tvisvar sinnum, fyrst með því sem kallað var sveitasíminn, þ.e. með símanum sem byggði upp á miðstöðvakerfinu, og síðan því sem seinna var kallað sjálfvirki síminn þar sem maður gat þá valið samband með beinum hætti. Það er ekkert óskaplega langt síðan við lukum því átaki. Það var rétt um 1985 sem okkur tókst að lokum að ljúka við uppbyggingu á símakerfi sem byggði á þeirra tíma bestu tækni. Þannig hefur uppbygging á internetinu verið hér líka, hvort sem við tölum um þráðlausa eða fasttengda sambandið og þráðlaust og þráðbundið internet sem við höfum kannski hérna til umræðu.

Þess vegna tek ég ekki alveg undir þær ræður sem hafa verið fluttar hér um að það sé allt Evrópusambandinu og EES-samningnum að þakka hverju okkur hefur tekist að áorka í þeim efnum. Við höfum unnið mjög merkilega sigra í þeim efnum á undanförnum árum og áratugum. Ég gæti líka dregið upp þá hlið að vegna þess regluverks sem við höfum þurft að undirgangast séum við mögulega að sóa verðmætum í formi fjármuna í uppbyggingu á þessu kerfi sem við hefðum mögulega getað nýtt betur. Það er önnur saga og ég ætla ekki að fara nánar út í hana hér.

Við höfum líka góða sögu að segja í netmálum, þ.e. miðað við þau lönd sem við berum okkur saman við í alþjóðasamstarfi í fjarskiptamálum og á þeim mælikvarða sem mælir í raun og veru marga þætti netnotkunar, ekki bara útbreiðsluna heldur líka þekkingu íbúanna og færni í að tileinka sér internetið, á tækjabúnaðinum sem fólkið hefur aðgang að og síðan hvernig það notar internetið. Við fórum á þessum flókna mælikvarða úr 2. sæti, við vorum lengst af á eftir Suður-Kóreu, upp í 1. sæti á þessu ári. Útslagið í þeim efnum gerði þetta sem ég vil kalla metnaðarfullt átak okkar í að byggja upp raunverulegt háhraðainternet sem menn vilja kalla svo en ég vil miklu frekar kalla afkastamiklar tengingar því að hraðinn er hugtak sem úreldist mjög hratt í umræðum um internettengingar. Það sem í dag er talinn mikill og góður hraði er orðin óskaplega úrelt tala morguninn eftir. Almennt um aðgengi landsmanna að interneti má segja að við höfum það í góðu lagi og að við munum hafa það í enn betra lagi innan tíðar.

Markaðurinn hérna er líka bæði grimmur og öflugur. Við byggjum fjarskiptamarkaðinn fyrst og fremst upp á markaðsdrifnum lausnum eða markaðsdrifnum fyrirtækjum. Við erum að grípa þar inn í sem markaðurinn vill ekki láta sig varða.

Samkeppni á þessum markaði er mjög mikil. Auðvitað ber að halda þannig um málin, m.a. með þessu tæknilega frumvarpi hér, að við séum ekki á nokkurn hátt að deyða hana. Þess vegna tek ég undir það sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson gerði að umtalsefni í sinni ræðu, það er afskaplega mikilvægt að við leiðum með skýrari hætti okkar reglur, að taka utan um það sem við köllum nethlutleysi eða að við komum okkur ekki í þá stöðu að mögulega lenda í því að menn fari að fikta í hraðanum á netinu eða aðgengi okkar að því þannig að það sé ekki þessi aðgengilegi grunnþáttur samfélagsins sem internet raunverulega er.

Nethlutleysi hefur raunverulega verið drifkraftur í öllum okkar átaksverkefnum og allri umgjörð um fjarskiptamarkaðinn á Íslandi hingað til. Þess vegna er hér um að ræða eðlilegt framhald eða eðlilega endurbót á regluverkinu sem fjallar um netlausnir í því tilliti því að almennt má segja að hér ríki það regluverk fyrst og fremst að það sé hægt að ganga þannig fram gagnvart þeim fjárfestingum og innviðum sem til eru í þessum heimi að ný fyrirtæki geti haslað sér völl og fengið aðgengi að uppbyggðum kerfum innan þeirra marka sem reglur okkar heimila.

Þriðji þátturinn sem ég vildi beina til hv. umhverfis- og samgöngunefndar að fjalla um í meðferð sinni á þessu máli, fyrir utan þessi mikilvægu atriði eins og útbreiðslu netsins og nethlutleysið og mikilvægi þess að tryggja stöðu okkar í þeim efnum, er reikimálin. Hér var regluverk dásamað sem við höfum flutt inn en það á sér líka mjög dökkar hliðar. Ein er t.d. reikimál. Reikimál eru ekki bara það sem margir hafa upplifað í viðskiptum sínum við farsímafyrirtæki, að breyting hafi orðið á verðlagningu vegna reikis farsímafyrirtækja í Evrópu, heldur vil ég líka horfa hingað heim. Við sem keyrum þjóðvegakerfi landsins — og sumir segja að við keyrum allt of mikið — verðum mjög vör við það að við keyrum inn í margar gloppur í farsímakerfinu okkar. Því beini ég því til nefndarinnar að fjalla um reikiþátt þessa máls af meiri dýpt en reifað er í frumvarpinu vegna þess að veruleikinn er sá að fjarskiptafyrirtækin setja upp senda og byggja upp sendakerfi hvert fyrir sína viðskiptavini. Þau eru nokkur og það er mikil fjárfesting í þessum sendum. Við veljum okkur síðan viðskipti við eitt tiltekið fyrirtæki og þá verðum við að vera á sendum þess fyrirtækis.

Við reikum aðeins á milli senda þar sem þeir hafa verið byggðir upp með opinberri aðstoð, t.d. hefur fjarskiptasjóður í allmörgum tilfellum byggt upp sendastaði. Þar má reika á milli fyrirtækja þannig að við dettum ekki út á þeim köflum en við dettum út á köflum þar sem við erum að hoppa á milli fjarskiptafyrirtækja. Mér finnst og hefur lengi fundist það óskaplega mikill ljóður á ráði okkar að taka ekki betur utan um þennan þátt og heimila þegar við komum út úr þéttustu byggðum landsins að það sé byggt upp sameiginlegt dreifikerfi farsímasenda eða í það minnsta heimiluð reiki þar á milli fyrir íslenska viðskiptavini.

Eftir því sem mér skilst verða ferðamenn lítt varir við þetta því að þeir koma inn í landið og fá reikiréttindi sín ef við getum orðað það með þeim hætti.

Auðvitað er þetta inngrip í markaðinn og flókið mál að fást við en svo mikið tel ég mig þekkja til á fjarskiptamarkaðnum að ég tel hægt að leysa það af skynsemi og með eðlilegu uppgjöri á milli fyrirtækja. Þetta er kannski fyrst og fremst það atriði við þetta frumvarp sem ég myndi vilja láta rannsaka betur og kafa betur ofan í.

Kannski eru engar heimildir til að gera betur í þessum efnum. Það er samt þannig að þegar við flettum, skoðum og leggjum okkur fram geta líka myndast skapandi lausnir. Það er fyrst og fremst vegna skapandi lausna sem Ísland horfir framan í það að vera með mestu útbreiðslu á fjarskiptatengingum eða internettengingum sem þekkjast í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Bara að lokum, virðulegi forseti, þótti þeim sem hér stendur ákaflega vænt um það þegar Merkel, kanslari Þýskalands, sagði í kosningabaráttu í Þýskalandi í ágúst sl. að Þýskaland þyrfti að ná þeim stað í fjarskiptum sem Ísland væri á.