148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir spurningu hennar sem snýr að grunngildi stöðugleika. Eins og ég kom inn á fyrr í andsvari er stöðugleiki auðvitað margvíslegur. Við höfum blessunarlega viðhaldið verðstöðugleika. Það er ekkert í stefnunni sem segir til um það að við séum að taka ákvarðanir inn í framtíðina sem raska honum. Stefnan er þannig fram sett, tölulega, en í ríkisfjármálaáætlun, ólíkt stefnunni, eru ákvarðanir teknar á hverju ári, þar hljótum við á grundvelli stefnunnar að taka ákvarðanir sem raska ekki stöðugleika.

Það er síðan annars konar stöðugleiki og þá vil ég benda hv. þingmanni á umsögn Samtaka iðnaðarins sem er athyglisverð, er snýr að raungengi á mælikvarða verðlags og launa. Það er annars konar stöðugleiki. En við verðum alltaf að skoða efnahagshorfurnar og taka ákvarðanir ár frá ári í ríkisfjármálaáætlun sem raska ekki stöðugleika.