148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:48]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Við ræðum fjármálastefnu til næstu fimm ára sem ekki má breyta nema eitthvað hræðilegt gerist á Íslandi. Þetta er síðari umræðan og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra situr ekki í salnum og ekki einn einasti ráðherra.

Ég fer fram á það, herra forseti, að við frestum þessum fundi og forseti kalli þingflokksformenn á fund með sér til þess að fara yfir þessi mál þar sem ákveðið verður hvort við höldum þessari umræðu áfram eða við frestum henni þar til síðar. Kannski er skynsamlegast að fresta henni og taka frávísunartillöguna síðan fyrir sem fyrsta mál á dagskrá í fyrramálið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)